Einar Bragi: Litum á Evrópusöngvakeppnina sem eitt stórt partý

Einar Bragi Bragason er nýfluttur frá Austurlandi eftir að hafa búið í um 20 ár á Seyðisfirði og starfað þar sem tónskólastjóri. Áður en hann kom austur fór hann með með Stjórninni í úrslit Evrópusöngvakeppninnar í Júgóslavíu þar sem liðið varð í fjórða sæti með Eitt lag enn.


„Sigga og Grétar unnu keppnina hér heima og það var ákveðið að Stjórnin færi með út. Við vorum sendir í söngprufur því það var ekki treyst á að við gætum sungið bakraddir.

Við litum á ferðina sem eitt stórt partý. Meðan aðrir voru nánast með konfektkassa fulla af geisladiskum og öðru kynningarefni vorum við með blöð í plastvasa og svartar kassettur. Við litum á það sem rugl þegar menn fóru að tala um að við gætum unnið. Svo kom á daginn að við enduðum í fjórða sæti.

Við slógum líka í gegn eftir keppnina. Það var haldið partý í höllinni og þar var júgóslavneskt band að spila. Ég man ekki hvernig það kom til en við fórum upp á svið og tókum þar hálftíma prógramm eins og við vorum vön af Hótel Íslandi og gerðum allt vitlaust. Það kom meðal annars í blöðunum í Danmörku,“ sagði Einar Bragi í samtali við Austurgluggann í síðustu viku.

Norðmenn í vandræðum

Borgarastríðið sem sundraði landinu endanlega braust út ári síðar en spennan var til staðar. „Það voru hermenn á hverju götuhorni og mikið eftirlit. Norðmenn urðu bestu vinir okkar þarna úti og við fórum saman í partýið.

Þeir áttu hins vegar flug heim síðar en við og meðan við fórum upp á hótel ákváðu þeir að fara í togaklæðum út á torg. Þar voru þeir handteknir og það þurfti diplómata til að leysa þá út.“

Einar Bragi var ekki með þegar Sigga og Grétar fóru tveimur árum síðar með Nei eða já en hann spilaði hins vegar á saxófón í laginu Þá veistu svarið sem Ingibjörg Stefánsdóttir söng í lokakeppninni á Írlandi árið 1993. „Þá var keppnin haldin í risastórri reiðhöll og maður fann hestalyktina vel meðan á keppninni stóð.“

Keppnin skapar atvinnu

Seinna undanúrslitakvöld íslensku forkeppninnar verður annað kvöld. Einar Bragi fylgist vel með keppninni sem reyndur Júróvisiónfari.

„Ég var í ríkisbandinu í nokkur ár. Það bjargaði jólunum,“ segir hann. „Manni þykir vænt um keppnina eftir að hafa farið í hana. Það er einhver gleði í kringum hana. Ég svara þeim sem gagnrýna hana neikvætt með að benda á að þótt ekki séu nema tvö góð lög af 26 þá sé það svipað hlutfall og maður heyri í útvarpinu yfir daginn.

Mér fannst keppnin skemmtilegri þegar hún var alveg lifandi. Undankeppnirnar 1986-1990 eru skemmtilegustu keppnirnar í mínum huga. Eins og sést í þáttunum sem Sjónvarpið hefur sýnt að undanförnu þá kom mikið af góðri íslenskri tónlist fram í henni.

Svíar halda 4-5 undankeppnir víðsvegar um landið og svo lokakeppni í Stokkhólmi. Þannig fá þeir þúsundir nýrra sænskra laga í spilun. Hver keppni skapar vinnu. Það þarf hljóðfæraleikara í hljóðver, hljóðmenn og fleiri svo það má finna margt jákvætt við keppnina.“

Hann hefur líka einu sinni sent inn lag. „Það hét Don‘t Say Goodbye og var sungið af Ernu Hrönn. Ég vann það með tveimur Svíum sem ég komst í samband við í gegnum MySpace. Þau höfðu hlustað á efni eftir mig þar og spurðu hvort ég ætti lag. Ég sendi þeim það og þau bjuggu til texta. Þannig var því hent á milli Stokkhólms og Seyðisfjarðar. Það komst ekki í keppnina en fór á safnplötu og varð vinsælt hér heima.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.