![](/images/stories/news/2017/eyrarrosin_eistnaflug_web.jpg)
Eistnaflug fékk Eyrarrósina: Erum ógeðslega hamingjusamir
Þungarokkshátíðin Eistnaflug í Neskaupstað fékk verðlaunin Eyrarrósina sem afhent voru á Hjalteyri í dag en þau eru veitt fyrir framúrskarandi menningarstarf á landsbyggðinni. Skipuleggjandi hátíðarinn segir verðlaunin viðurkenningu fyrir þungarokk á Íslandi.
„Við vorum voða ánægðir með að vera tilnefndir en að vinna verðlaunin var eitthvað sem okkur dreymdi ekki um. Við erum ógeðslega hamingjusamir og gríðarlega ánægðir með lífið,“ sagði Stefán Magnússon, forsprakki Eistnaflugs, þegar Austurfrétt hafði tal af honum.
Hátíðin var fyrst haldin árið 2005 og hefur síðan stöðugt undið upp á sig. Farið var af stað með hugmyndina um árshátíð þungarokkara á Íslandi en Stefán segir að engan hafa órað fyrir hvernig úr henni myndi rætast.
„Það vantaði mikið upp á það en svo varð þetta svona með öllum sínum breytingum. Við höfum gert þetta á þolinmæðinni.“
Hátíðin er orðin alþjóðleg, bæði með erlendum hljómsveitum og gestum. „Þessi sena er ekki stór á Íslandi þannig hátíðin verður að vera alþjóðleg ef hún á að bera sig. Styrkir duga ekki til að svona hátíðir beri sig og því verður að selja miða. Til þess þarf að vera með nýjar og nýjar hljómsveitir þannig fólk nenni að koma ár eftir ár.“
Meðal þeirra sveita sem tilkynntar hafa verið fyrir hátíðina í sumar er Dillinger Escape Plan. „Við erum búin að staðfesta þrjár stórar sveitir og ellefu erlendar alls. Við eigum eftir að tilkynna eitt stórt erlent band í viðbót þannig að hátíðin verður risastór og falleg.“
Eliza Reid, forsetafrú, afhenti verðlaunin. Auk viðurkenningarinnar fær Eistnaflug tvær milljónir króna í verðlaunafé.
„Þessi viðurkenning þýðir að þungarokk á Íslandi fær smá þýðingu. Það koma líka peningar inn – það segir enginn nei við þeim. Þetta hjálpar okkur við að reka hátíðina, þetta hefur verið helvítis hark í þrjú ár.“
Auk Eistnaflugs voru Alþýðuhúsið á Siglufirði og Vesturfarasetrið á Hofsósi tilnefnd til verðlaunanna. Þau stóðu þrjú eftir af stærri lista sem opinberaður var fyrir rúmri viku en á honum voru einnig Rúllandi snjóbolti á Djúpavogi og List í ljósi á Seyðisfirði.
Áður hafa verðlaunin fallið LungA, Bræðslunni og Skaftfelli í skaut. Hefð er fyrir að afhenda verðlaunin í heimabæ síðasta sigurvegar sem þýðir að þau verða afhent í Neskaupstað að ári.
Mynd: Ágúst Ólafsson