Skip to main content

„Eitt stærsta námskeið sem haldið hefur verið á Austurlandi“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. maí 2016 07:26Uppfært 12. maí 2016 07:27

Lokatónleikar Hljómsveitanámskeiðs Austurlands fara fram í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á föstudagskvöldið.



Spennandi hljómsveitanámskeið hafa verið í fjórðungnum í vetur en það er gítarleikarinn Jón Hilmar Kárason sem fer fyrir verkefninu, en samstarfsaðilar eru JEA og Tónlistarmiðstöð Austurlands.

„Þetta er risastórt námskeið sem hófst í febrúar og er bara að ljúka núna 13 maí. Það skiptist í nokkra hluta, upptökunámskeið, lagasmíði og lífsviðhorf með þekktum tónlistarmönnum auk þess sem nemendur fóru á tónleika með þekktum listmönnum. Þetta er klárlega eitt stæsta námskeið sem haldið hefur verið á Austurlandi og gaman að fá þáttakendur frá öllu svæðinu,“ segir Jón Hilmar.


Salka Sól greindi frá einelti og sviðsskrekk

Þátttakendur á námskeiðunum voru um 40 talsins á öllum aldri en hljómsveitanámskeiðið sjálft var hugsað fyrir tónlistarmenn á aldrinum 10-20 ára.

„Bjartmar Guðlaugsson og Lay Low hittu nemendur á frábæru lagasmíðanámskeiði þar sem þau ræddu um sína nálgun á viðfangsefninu og töluðu einnig um lífsviðhorf sín.

Salka Sól ræddi um sinn feril og leiðbeindi söngvurum og hljóðfæraleikurum um framkomu og söng. Hún greindi meðal annars frá einelti sem hún þurfti að glíma við í æsku sem og að henni fannst hún ekki nógu góð söngkona og hvernig hægt er að takast á við og yfirvinna sviðsskrekk.

Guðjón Birgir Jóhannsson hélt upptökunámskeið þar sem farið var yfir helstu þætti þeirrar vinnu og þáttakendur fóru að á tónleika í Egilsbúð þar sem hver stórsöngkonan af annari steig á stokk og söng lög Ellý Vilhjálms.“


Mikilvægur stuðningur

Æfingar hafa farið fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, í Tónskóla Neskaupstaðar og Tónlistarskóla Reyðarfjarðar.

„Við kunnum við þeim þakkir fyrir stuðninginn. Einnig Uppbyggingasjóði Austurlands, Alcoa Fjarðaáli, SÚN og Fjarðabyggð, en ekki hefði verið hægt að halda svo glæsilegt námskeið án þeirra aðkomu.“

Lokatónleikarnir hefjast klukkan 20:00 en þar verða flutt ný austfirsk tónlist í bland við eldri og þekktari tónlist. Axel Flóvent verður sérstakur gestur en hann hefur ferðast víða um heim með sína tónlist.