Tígrisrækjukombó yfir opnum eldi

Í blíðviðrinu sem einkennt hefur fjórðunginn að undanförnu er fátt meira heillandi en grilla allan mat sem hætg er og hvað þá yfir opnum eldi. Hér er frábær hugmynd fyrir helgina, Tígrisrækjukombó eldað yfir opnum eldi. 

 

Þau Snæþór Sigurbjörn Halldórsson frá Egilsstöðum og Alma Rún Rúnarsdóttir Thorarensen frá Eskifirði hafa verið búsett í Noregi frá því 2011 en saman eiga þau synina Brimi Örn og Erni Hlé, auk þess sem Snæþór á dótturina Arndísi Rán. Þau una hag sínum vel í Sørumsand, bæ skammt norðaustur af Osló.


„Í Noregi búa allmargir Íslendingar eins og kunnugt er. Það er því viðbúið að menn myndi tengsl sín á milli hér enda nánustu aðstandendur oftast búsettir á Íslandi.

Vinkona okkar, Pálína Ósk Hraundal, ferðamálafræðingur með meiru, fékk þá frábæru hugmynd fyrir nokkrum árum síðan að boða til svokallaðs bálhittings inn í skógi. Hugmyndin þróaðist og vatt upp á sig. Um er að ræða allfjölmennar samkomur sem eiga sér stað einu sinni til tvisvar á ári, að hausti, þegar heimilt er orðið að kveikja opinn eld í skóginum eins og lög og regluverk bjóða. Þá koma saman margar íslenskar fjölskyldur og hafa meðferðis viðarkubba á bálið og alls kyns góðgæti til eldunar.

Aldrei er langt í „pissukeppnina“ hjá okkur karlpeningnum, sem kemur fram í því að við keppumst við að reiða fram sem flóknasta og besta rétti við þær fábrotnu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í skóginum. Flamberað tígrískrækju- corizo kombó er eitt af því sem slegið hefur í gegn. Ég tel óhætt að mæla með þessum rétti hvort sem það er á aðfangadagskvöld eða úti í skógi,” segir Snæþór og deilir uppskriftinni hér með lesendum:

Flamberað tígrisrækjukombó

  • 300 gr. tígrisrækjur
  • 200 gr. hrá Corizo pylsa
  • Einn laukur, saxaður
  • Ein paprika, söxuð
  • Góður slatti af fersku, söxuðu kóríander
  • Gott dass af koníaki og smá í pela fyrir kokkinn og kumpánana
  • Nokkur saltkorn (pylsan er talsvert sölt)
  • Malaður pipar
  • Þrír saxaðir hvítlauksgeirar
  • Einn peli rjómi
  • Aðeins af reyktri malaðri papriku
  • Ólífuolía, svona tæpur hálfur desilíter

 

„Best er að undirbúa allt og setja í plastdalla ef elda á réttinn yfir opnum eld að heiman og um að gera að blanda öllu kryddinu saman í einn lítinn dall. Pillið rækjurnar og skerið Corizo pylsuna í svona tveggja sentimetra bita. Ég mæli eindregið með almennilegri bálpönnu með haldi sem verður ekki logandi heitt. Slíkar pönnur fást vafalítið í útivistarverslunum á Íslandi.

Fyrst er að smella olíunni á pönnuna. Þegar hún er orðin heit er laukurinn og hvítlaukurinn settur á, nokkrum augnablikum síðar er pylsunni blandað við. Þá kemur paprikan þegar pylsan er að mestu steikt og gott er að leyfa þessu að malla aðeins á meðan tappinn er tekinn úr koníakinu. Hella koníakinu á pönnuna, halla henni svo að það safnist saman á einum stað og kveikja í því. Þegar eldurinn í pönnunni deyr fara rækjurnar í og stuttu síðar rjóminn og kóríanderið. Það er látið malla í smá stund. Þá er setja réttinn í skálar, taka fram áhöld og njóta. Ekki verra að bera herlegheitin fram með góðu brauði. Vel má nota humar í stað rækjunnar, en þá verður að passa sérstaklega að hafa hann bara í augnablik á pönnunni,“ segir Snæþór.

Tígrisrækjukombó2

Tígrisrækjur1

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.