„Er hægt að segja við þessi áramót að okkur sé gefinn friður?“

Ákall til góðra verka sem varða framtíð mannkyns var meðal þess sem Þorgeir Arason, sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli, boðaði í nýárspredikun sinni í gær. Þar ræddi hann hættuna af hlýnun jarðar og ófriðarseggjum, til dæmis forseta Bandaríkjanna sem breiddi yfir eigin sjálfsímyndarkrísu með að kynda undir báli ofbeldis.

Þorgeir sagði að þess væri að vænta að ársins 2017 verði minnst sem óróaárs eða jafnvel óttaárs. Ekki sé nýtt að heimsbyggðinni stafi ógn af samtökum sem noti trúarbrögð sem skálkaskjól fyrir ofbeldisverk eða valdasjúkum leiðtogum sem svífist einskis.

Nefndi Þorgeir nokkra þekkta leiðtoga og samtök í því samhengi en bætti svo við embætti forseta Bandaríkjanna sem Donald Trump hefur nú gegnt í tæpt ár.

„Nú ber svo við að það embætti, sem gjarnan hefur verið talið heimsins valdamest, sæti forseta Bandaríkjanna, vermdi allt undanfarið ár maður sem sjálfur hvetur til ófriðar í ræðu og riti og breiðir yfir eigin sjálfsmyndarkrísu með því að kynda undir bál ofbeldis fremur en að reyna að bera vopn á klæðin.

Óttinn um að púðurtunnur kunni að springa, og jafnvel að glampa taki á kjarnaoddana í vopnabúrum heimsins, er því miður ekki úr lausu lofti gripinn.

Er hægt að segja við þessi áramót að okkur sé gefinn friður?“

Friður í að leggja okkar af mörkum í þágu lífsins

Þorgeir vék svo máli sínu að hlýnun Jarðar sem væri mesta manngerða ógnin sem steðjaði að íbúum jarðar, hvað sem Donald Trump þætti um það. Hana megi ekki síst rekja til ofneyslu en áætlað er að hver Evrópubúi skilji eftir sig tæpt hálft tonn af rusli á ári.

Þorgeir sagði kristna trú ekki bjóða upp á neina töfralausn við þeim margþætta vanda sem veröldin standi fyrir. Hún sé afleiðing af „óhaminni sjálfhverfu, græðgi og valdafíkn. En styrkur trúarinnar er sá að þar finnum við ekki aðeins siðferðilega leiðsögn og hvatningu, heldur samfélag við lifandi Guð.“

Kristið fólk geti í sameiningu haft mikið um það að segja hvernig veröldinni reiði af. Þannig sé Frans páfi meðal þeirra sem hafi leitt umræðuna gegn loftslagsbreytingum á heimsvísu og þá kristnar kirkjur víða í Evrópu, meðal annars á Íslandi, tekið upp hanskann fyrir það fólk sem flýja hafi þurft heimkynni sín vegna ofbeldis og ofstækis.

Þorgeir ræddi að oft væri erfitt að finna raunverulegan friði í heimi sem oft virtist fullur af hraða, spennu og óöryggi. Vísaði hann í að hugtakið friður hefði mismunandi merkingar í huga fólks en í Biblíunni vísi hugtakið í í lífið allt sem eina heild þar sem allar hliðar þess eru í góðu jafnvægi, bæði hjá einstaklingnum og í þjóðfélaginu.

„Okkur er beint til verka, til að finna frið í því að leggja okkar af mörkum í þágu lífsins. Því ef lífsheildin á að vera í jafnvægi lætur hinn kristni friður sig varða um misrétti og fordóma, lætur sig varða um hag þeirra sem minna mega sín og um hag lífríkisins. – Þið kannist við að stundum er talað um að „halda bara friðinn.“ Þetta á eiginlega ekkert skylt við það!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.