Eskfirðingur skrifar um landsliðsþjálfarann
Eskfirðingurinn Guðjón Ingi Eiríksson hefur sent frá sér bók sem ber titilinn Lars Lagerbäck og íslenska landsliðið.
Í henni er rakinn ferill hins sænska landsliðsþjálfara Íslands áður en hann tók við landsliðsþjálfarastarfi Íslands, fjallað um aðdragandann að ráðningu hans hingað til lands og um samstarf og verkaskiptingu hans og Heimis Hallgrímssonar, uppbyggingu blaðamanna- og liðsfunda þeirra og farið yfir alla landsleiki Íslands, allt frá því að þeir tóku þar við stjórn og fram að þeim síðustu.
Formála að bókinni ritar Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta, sem varð Evrópumeistari undir hans stjórn í janúar síðastliðnum. Þar kemur hann m.a. inn á hugarfar sigurvegarans.
Bókaútgáfan Hólar gefur bókina út. Guðjón Ingi hefur áður ritað bækur um knattspyrnu, einkum Manchester United sem og söfn með fleygum ummælum og gamansögu úr ýmsum stéttum.