Skip to main content

Fagnaði 100 ára afmælinu með bíltúr í gegnum Norðfjarðargöng

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. ágú 2016 17:28Uppfært 18. ágú 2016 17:31

Stefán Þorleifsson í Neskaupstað fagnaði 100 ára afmæli sínu í dag með því að fara í bíltúr með Kristjáni L. Möller, þingmanni og fyrrverandi samgönguráðherra, í gegnum ný Norðfjarðargöng.


„Þetta var ákveðið hér fyrir nokkru síðan þegar Kristján Möller, þá samgönguráðherra, var heiðursgestur á þorrablóti hjá okkur.

Norðfjarðargöngin voru þá á dagskrá en ekki byrjað á þeim. Ég lofaði honum því að ef göngin yrðu komin þegar ég yrði 100 ára þá skyldi ég keyra með honum í gegn á afmælisdaginn.

Nú er afmælisdagurinn runninn upp, Kristján er kominn og það hefur allt staðist með göngin,“ sagði Stefán í samtali við Austurfrétt.

Stefán hefur verið ötull baráttumaður fyrir nýju göngunum sem og öðrum framfaramálum á Norðfirði í áratugi.

Stefán hefur verið drifkraftur í fjölmörgum framfaramálum Norðfjarðar. Hann var einn af þeim sem hvatti til byggingar sundlaugarinnar og veitti henni forstöðu um árabil.

Síðar var hann varaformaður bygginganefndar Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað og forstöðumaður þess í þrjátíu ár.

Stefán þjálfaði lengi íþróttir hjá Þrótti, kom að félagsstarfi Ungmennafélagsins Egils Rauða og er enn virkur í Rótarýklúbbnum. Meðal viðurkenninga sem hann hefur hlotið fyrir ævistarf sitt var gullmerki Ungmennafélags Íslands sem honum var veitt fyrir fjórum árum.

Á laugardag efnir hann til afmælisveislu og á sunnudag stendur Golfklúbbur Norðfjarðar fyrir Stefánsmótinu sem haldið hefur verið árlega síðan Stefán varð níræður. Hann er mikill golfáhugamaður, var stofnfélagi í klúbbnum og síðan formaður um árabil.

„Ég reyni að fara á hverjum degi á sumrin þegar er brúklegt veður. Konan mín gaf mér golfsett þegar ég varð fimmtugur, áður hafði ég ekki stundað íþróttina. Ég hef afskaplega gaman af því að stunda golfið. Maður er alltaf að reyna að sigra sjálfan sig, reyna að gera betur en á síðustu braut.“

Golfvöllurinn er rétt fyrir innan Neskaupstað og þangað keyrir Stefán sjálfur. „Blessunarlega keyri ég enn. Bílinn er mér mikils virði, einkum yfir sumartímann í tengslum við golfíþróttina. Ég vil geta farið þegar ég vil og átt góðar stundir við að leika mér í golfi.“

Kristján og Stefán kátir í sumarblíðunni við göngin í dag. Mynd: Guðmundur Gíslason

stefan thorleifs klm 2 web