„Fannst ég eiga svo mikið í skúffunni“
Út er kominn geisladiskurinn Laufey með lögum eftir Sigríði Laufeyju Sigurjónsdóttur við ljóð ýmissa textahöfunda. Útsetningar og upptöku annaðist Daníel Arason. Flestir textahöfundar, tónlistarmenn og söngvarar eiga rætur sínar að rekja til Austurlands.
„Fyrsta lagið samdi ég þegar ég var 13 ára gömul en það næsta kom ekki til mín fyrr en ég var orðin þrítug. Síðan þá hafa þau fæðst jafnt og þétt. Tónlist hefur alltaf verið mitt aðaláhugamál en þar er ég að mestu sjálfmenntuð. Ég hef átt í samstarfi við marga frábæra textahöfunda í gegnum tíðina en upp á síðkastið hefur það oftar verið þannig að ég les ljóð sem ég hrífst af og finn að það vill vera sungið og ég sem þá við það lag,“ segir Sigríður Laufey.
Ellefu lög eru á geisladisknum. „Ég er búin að vera að dúllast við þetta á löngum tíma. Mér fannst ég eiga svo mikið í skúffunni þannig að ég fór að hugsa hvort það væri hægt að gera eitthvað meira úr því efni þannig að ég hafði samband við tónlistarmanninn Daníel Arason sem var strax áhugasamur að útsetja lögin og stjórna upptökum.“
Flestir þeir sem að verkefninu komu eru búsettir á Austurlandi eða eiga rætur sínar að rekja þangað. „Dóttir mín, Sigurbjörg Ingvarsdóttir, syngur eitt lag og eru flestir flytjendur af Austfjörðum eða Héraði. Textahöfundar eru þau Sólveig Björnsdóttir, Ágústa Ósk Jónsdóttir, Arnar Sigbjörnsson og Páll Ólafsson sem öll eru að austan. Einnig eiga þeir Brynleifur H. Steingrímsson og Einar Steinþórsson hvor sinn texta á diskinum.“
Fjölbreyttar og vandaðar útsetningar
Margir líkja þeirri vinnu sem liggur að baki þess að gefa út bók eða geisladisk við meðgöngu og svo fæðingu barns þegar afurðin liggur eftir.
„Ég get tekið undir það og eins og ég sagði í útgáfuteitinu, þá var virkilega ögrandi að taka dótið upp úr skúffunni og rétta Daníel það, sem ég þekkti ekkert fyrir – svona eins og að fara með barnið sitt til dagmömmu í fyrsta skipti sem maður þekkir ekki neitt. Það eina sem ég vissi var að hann er frábær tónlistarmaður og á þeim grunni varð ég að treysta honum fyrir barninu mínu sem var svo sannarlega óhætt því það hefur vaxið og dafnað í höndunum á honum. Útsetningarnar eru fjölbreyttar og vandaðar og ég er mjög ánægð með hvernig til tókst og ég hef fengið afskaplega góð og jákvæð viðbrögð.“
Diskinn má panta hjá útgefanda í síma: 892-9434 eða gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Einnig verður hann til sölu á jólamarkaði Barra 17. desember.