![](/images/stories/news/2016/Tankurinn.jpg)
„Fáránlega flottur hljómburður“
Tankurinn á Djúpavogi verður formlega opnaður í kvöld þar sem bæði verður boðið upp á skemmtiatriði og hressingu.
„Um gamlan lýsistank er að ræða sem hreinsaður var að innan í sumar, en þar er fáránlega flottur hljómburður og það, sem og hve hrár hann er, gerir hann að afburða viðburða- og sýningarrými,“ segir Erla Dóra Vogler, ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps.
Það var Erla Dóra sjálf sem fékk hugmyndina af því að gefa tanknum nýtt líf. „Ég var nýflutt á Djúpavog og einhverju sinni þegar ég gekk fram hjá stakk ég hausnum inn í op sem var á honum og öskraði. Ég hugsaði strax með mér hve frábært væri að nýta hann til að halda til dæmis tónleika eða sýningar.“
Erla Dóra lagði tillöguna fram í sveitarstjórn og menningarmálanefnd, sótti um styrk í Uppbyggingarsjóð Austurlands og fékk.
„Styrkurinn nægði til að fá tankinn þrifinn af hinum frábæra Hallgrími Jónssyni tankahreinsi frá Hornafirði auk þess sem hann var gerður aðgengilegur með hurðum og strípaður að innan af dáðadrengjunum í Smástál á Djúpavogi. Auk þess hafa íbúar hér á Djúpavogi lagt fram ómetanlega sjálfboðavinnu í að gera þetta að veruleika. Í dag er Tankurinn nýtilegur en seinna kemur vonandi rafmagn og tæki sem verður til þess að hann býður upp á enn fleiri möguleika.“
Formleg opnun verður í kvöld klukkan 20:00. „Við verðum með söngatriði, gjörning og heitt kakó, en þetta er aðallega til þess að kynna rýmið, en Tankurinn er eign íbúa Djúpavogshrepps og hver sem er getur nýtt sér hann fyrir viðburði og sýningar. Fyrsta sýningin verður einmitt um næstu eftir tæpar tvær vikur þegar Sara Unnsteinsdóttir heldur sýningu, en hún var að klára myndlistarnám í Kína.“