Feiti fíllinn opinn: Ætlum að sjá hvernig fólk fílar þetta

Fyrsta opnunarhelgi krárinnar Feita fílsins er um helgina en barinn er staðsettur í Valaskjálf á Egilsstöðum. Rekstrarstjóri segist finna mikinn áhuga fyrir staðnum.


„Við höfum talað um þessa helgi sem generalprufu og ætlum að sjá hvernig staðurinn fílast. Við verðum með boltann, góða tónlist í græjunum og menn geta fengið sér veigar,“ segir Halldór B. Warén, rekstrarstjóri í Valaskjálf en sýnt verður beint frá úrslitaleik bandarísku NFL deildarinnar á sunnudagskvöld.

Staðurinn er á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni er klassískur bar í anddyrinu en á efri hæðinni er svæði sem ber meiri keim af næturklúbbi. „Við látum fólkið flæða á milli eftir stemmingu. Við verðum með lifandi tónlist og fleiri uppákomur.“

Ein þeirra verður um næstu helgi, 9. – 11. febrúar, undir yfirskriftinni „Ekki sækja vatnið yfir lækinn“ en þá koma fram listamenn af svæðinu. Lifandi tónlist verður, plötusnúður og pöbbkviss.

Hann er bjartsýnn á að Egilsstaðabúar og nærsveitungar taki nýja staðnum opnum örmum. „Það bætist við viðburðina því það er eftirspurn að komast hér inn. Við treystum á að þetta verði stígandi lukka. Við trúum að ef við gerum hlutina vel þá kunni fólk að meta það.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.