![](/images/stories/news/2017/feiti_fillinn_dori_pella_0020_web.jpg)
Feiti fíllinn opinn: Ætlum að sjá hvernig fólk fílar þetta
Fyrsta opnunarhelgi krárinnar Feita fílsins er um helgina en barinn er staðsettur í Valaskjálf á Egilsstöðum. Rekstrarstjóri segist finna mikinn áhuga fyrir staðnum.
„Við höfum talað um þessa helgi sem generalprufu og ætlum að sjá hvernig staðurinn fílast. Við verðum með boltann, góða tónlist í græjunum og menn geta fengið sér veigar,“ segir Halldór B. Warén, rekstrarstjóri í Valaskjálf en sýnt verður beint frá úrslitaleik bandarísku NFL deildarinnar á sunnudagskvöld.
Staðurinn er á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni er klassískur bar í anddyrinu en á efri hæðinni er svæði sem ber meiri keim af næturklúbbi. „Við látum fólkið flæða á milli eftir stemmingu. Við verðum með lifandi tónlist og fleiri uppákomur.“
Ein þeirra verður um næstu helgi, 9. – 11. febrúar, undir yfirskriftinni „Ekki sækja vatnið yfir lækinn“ en þá koma fram listamenn af svæðinu. Lifandi tónlist verður, plötusnúður og pöbbkviss.
Hann er bjartsýnn á að Egilsstaðabúar og nærsveitungar taki nýja staðnum opnum örmum. „Það bætist við viðburðina því það er eftirspurn að komast hér inn. Við treystum á að þetta verði stígandi lukka. Við trúum að ef við gerum hlutina vel þá kunni fólk að meta það.“