![](/images/Tinna_GUðmunds_og_fjölskylda.jpg)
Fékk óstöðvandi hláturskast í sónarherberginu
„Þar með hófst erfiðasta ár lífs míns. Í 70 fermetra íbúð með þrjú bleyjubörn,“ segir Tinna Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells á Seyðisfirði, um tímann eftir að hún eignaðist tvíburastrákana sína Stefán og Trausta Tinna var í opnuviðtali Austurgluggans fyrir stuttu.
Tinna hefur stýrt menningarmiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði síðastliðin fimm ár, en hún flutti austur ásamt manni sínum, Kristjáni Loðmfjörð og þremur ungum börnum þeirra árið 2012.
Þó svo að oft sé mikið at sem því tengist að stýra þríhliða menningamiðstöð segir Tinna að ekkert ár í hennar lífi hafi verið strembnara en 2011, þegar þau hjónin eignuðust tvíburastrákana Stefán og Trausta.
Þegar hún varð ófrísk var dóttir þeirra, Ólína Ugla, bara rétt liðlega eins árs. „Það var því töluvert sjokk sem við þó tókum með brosi á vör, þetta yrði bara frábært. Við komumst seint að í 20 vikna sónar vegna sumarleyfa á Landspítalanum en þá var okkur líka tjáð að börnin væru tvö! Það varð rosalegt „móment“ þarna í sónarherberginu þegar ljósmóðirin sagði okkur þetta. Mér sortnaði fyrir augum, ég sá allt í móðu og fannst herbergið hreyfast. Því næst fékk ég óstöðvandi hláturskast sem varði örugglega í korter.
Engir tvíburar í fjölskyldunni
Þarna vorum við komin þrjá mánuði á leið og höfðum allan þann tíma miðað allt út frá einu barni. Við bjuggum í pínulítilli íbúð, bíllinn okkar var of lítill og við áttum bara dót fyrir eitt ungabarn, þannig að það var margt sem þurfti að endurskoða. Þrátt fyrir að vera stór biti að meðtaka bjargaðist þetta auðvitað allt saman. Það eru engir tvíburar í fjölskyldunni þannig að fólkið okkar varð mjög hissa og segja má að það hafi fengið gleðiáfall við fréttirnar.“
„Erfiðasta ár lífs míns“
Tinna segir það ótrúlega merkilega upplifun að fá að ganga með tvö börn í einu.
„Sú meðganga gekk einnig alveg eins og í sögu, ég var hraust og allt í fína. Þeim lá þó aðeins á að koma í heiminn og ég var nánast búin að eiga annað barnið á leiðinni á spítalann en ég endaði hins vegar í bráðakeisara með það seinna. Ég var þó mjög fljót að jafna mig og við vorum komin heim innan við viku seinna.“
Þegar synirnir Trausti og Stefán komu í heiminn átti Ólína Ugla enn mánuð í að verða tveggja ára.
„Þar með hófst erfiðasta ár lífs míns. Í 70 fermetra íbúð með þrjú bleyjubörn. Í sannleika sagt man ég þó lítið eftir þessum tíma, aðeins þegar þeir voru þriggja mánaða og svo var eins og ég hefði næst komið til vitundar þegar þeir voru níu mánaða. Þetta voru gífurlega mikil viðbrigði og álag, svo mörg lítil líf til að hugsa um og bera ábyrgð á. Við sváfum bara í skorpum og gerðum það sem gera þurfti – lífið var bara; gefa að drekka, skipta um bleyju, skipta um föt, gefa að drekka, skipta um bleyju og skipa um föt.“
Daglega rútínan einföld og viðráðanleg
Tinna er ánægð með lífið á Seyðisfirði, sem og fjölskyldan öll. „ Okkur leið strax mjög vel á Seyðisfirði og vorum fljót að sjá kostina og þægindin. Hér eru stuttar vegalengdir og daglega rútínan er svo einföld og viðráðanleg, sem skiptir höfuðmáli þegar upp er staðið. Okkur finnst við hafa náð að kynnast og tengjast börnunum okkar ótrúlega vel á þessum tíma, því þó að heimilishaldið sé ekki alltaf dans á rósum seinnipartinn þá höfum við miklu meiri tíma með þeim en í seinnipartsruglinu í Reykjavík.“
Ljósmynd: Odd Stefán Þórisson