Ferðalag sem gengið hefur eins og í fornsögu

Farandkennarar á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa þrætt grunnskóla á Austurlandi, alla leið frá Höfn og að Egilsstöðum og kynnt fornsögur fyrir nemendur á miðstigi.

Ferðalag fræðaranna, Jakobs Birgissonar og Snorra Mássonar, er liður í ferð þeirra um allt landið í nafni verkefnisins „Handritin til barnanna.“

Þeir fara skóla á milli og halda upplífgandi erindi fyrir börn á miðstigi um þennan helsta fjársjóð Íslendinga, skinnhandritin. Um leið stikla þeir á stóru í ævi mannsins sem bjargaði arfinum, þjóðhetjunnar Árna Magnússonar.

„Þetta hefur gengið eins og í fornsögu hér á Austurlandi,“ segir Jakob. Vel, sem sagt. „Þetta eru magnaðar byggðir, sundlaugarnar flottar, hver göng þeim næstu betri og heimamenn hinir ljúfustu.“

„Í síðustu viku fórum við um Vestfirði,“ heldur hann áfram, „og til gamans gátum við borið saman ferð okkar við þá sem Árni fór sjálfur árið 1710 til að safna handritum á svæðinu. Hér getum við það ekki, enda lagði Árni aldrei í ferð um þessar slóðir, sem er kannski skiljanlegt enda samgöngur fullkomlega ómögulegar á þeim tíma. Sem betur fer hafði hann góða tengiliði hér, tvo sýslumenn, þá Þorstein Sigurðsson og Ísleif Einarsson.“

Árnastofnun bætir fyrir syndir feðranna

Snorri segir austfirsk börn mjög áhugasöm um fornsögur og skinnhandritin sem geymdu þær. „Við staðfærum okkar fræðslu og setjum bókmenntirnar í samhengi. Á meðan við slógum um okkur með Gísla Súrssyni fyrir vestan er Hrafnkell Freysgoði til dæmis meiri kóngur hér um slóðir. Mér finnst þess vegna gott að Árnastofnun sé mætt hérna austur, svolítið eins og til að bæta fyrir syndir feðranna, þ.e. Árna, sem sjálfur dirfðist aldrei hingað á slóð Freysgoðans,“ segir Snorri.

Aðeins hafa tveir grunnskólar fallið út úr dagskrá þeirra vegna kórónuveirufaraldursins. Að öðru leyti segja þeir farir sínar alfarið sléttar á annars hlykkjóttri leið. Þeir blása síðan til handritasmiðju fyrir börn og fullorðna í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 12-14 á laugardaginn, til að kóróna heimsókn Árnastofnunar í landshlutann þetta skiptið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.