Orkumálinn 2024

Ferðast um heiminn án þess að fara úr bænum

Gestakokkar munu bjóða upp á nýja matseðla í hverri viku í Beituskúrnum í Neskaupstað í sumar. Maturinn kemur úr ýmsum heimshornum.

„Við komum upp með þessa hugmynd í vetur þegar við hugsa um hvað við gætum gert fyrir heimafólk ef ekkert ferðafólk kæmi,“ segir Hákon Guðröðarson, eigandi hjá Hildibrand Hotels sem standa að baki Beituskúrnum.

Gestakokkar, ýmist sjálfstæðir eða frá veitingastöðum í Reykjavík, skiptast á að koma austur í sumar og bjóða upp á nokkra af sínum vinsælustu réttum. „Við verðum áfram með grunnmatseðil Beituskúrsins, pizzur og fiskipönnur en síðan erum við með lítið eldhús við pallinn sem í koma margir af flottustu matreiðslumönnum landsins með 6-8 rétti af sínum matseðli og búa til götubitastemmingu,“ segir Hákon.

„Þetta verður mikil matarupplifun. Með þessu getur fólk ferðast um heiminn án þess að fara úr bænum. Þetta verður heimsreisa í allt sumar,“ bætir hann við.

Kokkar frá Public House, sem sækir innblástur í japanskar matarhefðir, riðu á vaðið um síðustu helgi. „Það var æðisleg stemming og aðsóknin fór fram úr okkar björtustu vonum. Um helgina voru mest Norðfirðingar hjá okkur en núna sjáum við fólk koma víðar af eftir að hafa heyrt um þetta.“

Á hverjum fimmtudegi kemur nýr matseðill og eru aðkomukokkarnir til staðar fram til laugardags til að fylgja honum eftir. Síðan taka heimamenn við seðlinum og bjóða upp á rétti af honum meðan birgðir endast þar til röðin kemur að þeim næstu.

Nú á fimmtudag eru fulltrúar vínstúkunnar Tíu sopar að koma austur með náttúruvín og Suðurríkjamat. „Þetta verður allt annað en um síðustu helgi,“ segir Hákon. Á næstunni er einnig von á matreiðslumeisturum sem sækja í hefðir Suður-Afríku, Suður-Kóreu og Persíu, svo dæmi séu nefnd.

Samhliða gestakokkunum verður lifandi tónlist, plötusnúðar og uppákomur í Beituskúrnum um helgar. „Þar verður líf þar allar helgar.“

Sólin skein á gesti Beituskúrsins um síðustu helgi. Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.