Finnst skemmtilegast að mynda fólk í sínu daglega lífi

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, blaðamaður og ljósmyndari, vinnur að skemmtilegu verkefni um þessar mundir. Hún hefur síðan í vor heimsótt Jökuldalinn reglulega og tekið myndir af bændum og búaliði á dalnum við sín daglegu störf.


Ragnhildur eða Ragga eins og hún er alltaf kölluð á rætur að rekja í Hrafnkelsdalinn en hún er fædd og uppalin á Vaðbrekku og bjó þar til fimmtán ára aldurs. Hún hefur nú búið um árabil í Hafnarfirði og starfar sem blaðamaður á Vikunni meðfram störfum sínum sem ljósmyndari.

Gamall draumur

„Ég fékk þessa hugmynd fyrir nokkrum árum, að taka myndir af öllum gömlu sveitungunum mínum á Jökuldal og sá fyrir mér að fara á alla bæi og mynda þá við sín daglegu störf,“ segir Ragga í samtali við Austurfrétt. „Ég ákvað svo í fyrra að prófa að sækja um styrki til að gera þetta og allt í einu var ég komin með þrjá og þá varð ég að láta slag standa og drífa mig í málið,“ bætir hún við.

Ragga byrjaði á ljósmyndaverkefninu síðasta vor og byrjaði á því að mynda bændur í sauðburði. „Ég hafði góðan tíma síðasta sumar og var hérna fyrir austan í alveg tvo mánuði svo ég mætti aftur og tók myndir af þeim í heyskap, girðingavinnu og allskonar verkefnum sem til falla í sveitinni. Svo fór ég í réttir í haust og núna er ég að mynda bændur við vetrarstörfin.“

Bændur jákvæðir

En hvernig taka bændur í þetta? „Þeir eru náttúrulega yndislegir og hafa tekið mér rosalega vel. Ég hef bara hringt og sagt frá erindi mínu og þeir bara; já, já, komdu bara í heimsókn,“ segir Ragga hlæjandi.

„Ég er heldur ekkert að stilla þeim upp með ljósum né flassi, ég er bara með myndavélina og fylgi þeim eftir lungann úr deginum til að fá fílinginn í þeirra störfum og til að fá innsýn í bændasamfélagið.“

Og hefur gengið vel? „Alveg rosalega enda finnst mér þetta skemmtilegast, að mynda fólk í sínu daglega lífi og ná karakternum.“

En saknar hún aldrei sveitalífsins? „Jú, ég nefnilega sakna þess að mörgu leyti, það er náttúrulega yndislegt að vera hérna og ég fann það svo vel í sumar að þetta var bara einn besti tími sem ég hef átt í mörg ár. Með því að flakka á milli bæja datt maður í allt annað andrúmsloft en maður er vanur í bænum. Hér eru allir svo rólegir og yndislegir.“

Ljósmyndasýning

En hvað ætlar Ragga að gera við allar myndirnar? „Ég ætla að búa til ljósmyndasýningu en Alli sem rekur Á hreindýraslóðum á Skjöldólfsstöðum, mínum gamla heimavistarskóla, ætlar að leyfa mér að hengja myndirnar upp hjá sér í nýju byggingunni á hótelinu hans. Ég stefni á að halda sýninguna í vor,“ segir Ragga að lokum.

Ragga þegar hún var að taka myndir í Teigaseli á dögunum. Mynd: Brynjar Leó Hreiðarsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.