![](/images/stories/news/folk/Fjarðadætur_web.jpg)
Fjarðadætur bjóða á opna æfingu í kvöld
„Færeyingar eru einstaklega söngglaðir og kunna að meta tónlist af ýmsum toga. Okkur langaði því að fara þangað til að syngja fyrir þá og styrkja í leiðinni vinaböndin milli þjóðanna,“ segir Jóhanna Seljan, forsprakki sönghópsins Fjarðadætra, en þær halda opna æfingu í Beituskúrnum í kvöld áður en þær halda utan í fyrramálið.
„Við siglum með Norrænu í fyrramálið, ásamt undirleikaranum okkar, Þórði Sigurðarsyni. Ætlunin er að halda ferna tónleika í Færeyjum, tvenna í Tórshavn, eina í Klaksvík og eina á Nólsoy. Einnig munum við skemmta um borð í ferjunni ásamt því að vera með „popup“ tónleika hér og þar á meðan á dvölinni stendur. Þórður verður með harmonikkuna þannig að við getum tekið lagið þegar og þar sem okkur dettur í hug.“
Jóhanna segir að rykið hafi verið dustað af gamalli hugmynd. „Okkur langaði að fara fyrir nokkrum árum síðan en aðstæður leyfðu það ekki á þeim tíma. Eftir frábærar viðtökur í kjölfar jólatónleikanna sem við héldum í fyrra settum við okkur það markmið að fara út fyrir landsteinana. Við héldum svo nokkra tónleika snemmsumars til þess að safna í ferðasjóð. Mikil og góð stemmning er í hópnum og við vonumst til þess að sjá sem flesta í kvöld.“
Æfingin í Beituskúrnum hefst klukkan 20:00, aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.