Fjarðadætur bjóða á opna æfingu í kvöld

„Færeyingar eru einstaklega söngglaðir og kunna að meta tónlist af ýmsum toga. Okkur langaði því að fara þangað til að syngja fyrir þá og styrkja í leiðinni vinaböndin milli þjóðanna,“ segir Jóhanna Seljan, forsprakki sönghópsins Fjarðadætra, en þær halda opna æfingu í Beituskúrnum í kvöld áður en þær halda utan í fyrramálið.


„Við siglum með Norrænu í fyrramálið, ásamt undirleikaranum okkar, Þórði Sigurðarsyni. Ætlunin er að halda ferna tónleika í Færeyjum, tvenna í Tórshavn, eina í Klaksvík og eina á Nólsoy. Einnig munum við skemmta um borð í ferjunni ásamt því að vera með „popup“ tónleika hér og þar á meðan á dvölinni stendur. Þórður verður með harmonikkuna þannig að við getum tekið lagið þegar og þar sem okkur dettur í hug.“

Jóhanna segir að rykið hafi verið dustað af gamalli hugmynd. „Okkur langaði að fara fyrir nokkrum árum síðan en aðstæður leyfðu það ekki á þeim tíma. Eftir frábærar viðtökur í kjölfar jólatónleikanna sem við héldum í fyrra settum við okkur það markmið að fara út fyrir landsteinana. Við héldum svo nokkra tónleika snemmsumars til þess að safna í ferðasjóð. Mikil og góð stemmning er í hópnum og við vonumst til þess að sjá sem flesta í kvöld.“

Æfingin í Beituskúrnum hefst klukkan 20:00, aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.