Fjölmenni á Ferguson kvöldvöku
Tæplega sextíu manns mættu á kvöldvöku sem Ferguson-félagið og Landbúnaðarsafn Íslands héldu á Egilsstöðum fyrir skemmstu.
Slíkar kvöldvökur hafa verið haldnar víða um land en fundurinn á Egilsstöðum var sá fjölmennasti sem haldinn hefur verið á þessu hausti.
Bjarni Guðmundsson hefur verið aðalræðumaðurinn en hann sýndi skyggnumyndir og sagði sögur af þróun Ferguson dráttarvélanna í tímanna rás. Bjarni er þekktur fyrir bækur sínar „Og þá kom Ferguson“ og „Alltaf er Farmal fremstur.“
Þá voru fornvélaáhugamenn á Fljótsdalshéraði heimsóttir af forsvarsmönnum félagsins í tengslum við fundinn.
Ferguson-félagið er hópur einstaklinga sem hafa áhuga á gömlum Ferguson dráttarvélum. Markmið félagsins eru meðal annars að stuðla að því að gera slíkar vélar upp, styrkja tengsl þeirra sem hafa áhuga á þeim og safna saman upplýsingum um þær.
Phil Vogler orti vísu eftir fundinn á Egilsstöðum sem birt var á vef Ferguson-félagsins.
Dráttarvélar drógu enn
drjúgan spotta á fundi.
Um fornu tækin fréttu menn
fleira en nokkur mundi.