Skip to main content

Fjölbreytt helgi á Austurlandi: Haustroðinn fer sífellt stækkandi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. sep 2016 12:11Uppfært 30. sep 2016 12:11

„Haustroðamarkaðurinn fer stækkandi með hverju ári,“ segir Jónína Brá Árnadóttir, atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi hjá Seyðisfjarðarkaupstað, en uppskeru- og markaðshátíðin er nú haldin í þrettánda skipti um helgina.



„Haustroði er hugsaður sem uppskeruhátíð Seyðfirðinga þar sem sumarið er gert upp og haustinu fagnað með allri sinni litadýrð, rökkri og hinum ýmsu kræsingum sem finna má í náttúrunni. Til dæmis er upplagt að taka þátt í sultukeppninni, en keppnin er einn af þessum klassísku föstu viðburðum Haustroða.,“ segir Jónína Brá.

Jónína segir viðburðinn skipta bæinn og bæjarbraginn miklu þar sem fólk komi saman og skemmtileg stemmning skapist iðulega. „Verslanir og veitingastaðir bjóða upp á allskonar skemmtileg tilboð eða viðburði í skammdeginu og hvað er yndislegra en að hitta nágranna yfir kræsingum þegar fer að rökkva? Svo er alveg sérlega skemmtilegt að sjá góða granna af Austurlandi koma yfir Fjarðarheiðina í heimsókn á Haustroða og hefur gestum fjölgað töluvert, en einnig þeim gestum sem taka virkan þátt í Haustroða með Seyðfirðingum, t.d. á Haustroðamarkaðnum.“

Aðspurð að því hvort einhverjar nýjngar verði í ár segir Jónína; „Dagskráin hefur sína föstu, árlegu, viðburði. Hins vegar má alltaf sjá eitthvað nýtt árlega og má nefna gítarnámskeið TA og Jóns Hilmars, en Jón Hilmar verður svo einnig með tónleika í Seyðisfjarðarkirkju á laugardagskvöld klukkan 20:30.

Nýjar sýningar eru í Skaftfelli og í Tækniminjasafninu og er vel þess virði að kíkja á þær. Sýning um þjóðsagnaritarann Sigfús Sigfússon, sem bjó um tíma á Seyðisfirði, verður til sýnis í Herðubreið frá kl. 12:00-17:00, en sýningin er fengin að láni frá Héraðsskjalasafni Austurlands.

Svo er sérstök Haustroðaopnun í Sundhöllinni, sem verður opin frá kl. 11:00-13:00, tilvalið tækifæri að fá sér sundprett, kíkja jafnvel í gufu og rölta svo um bæinn og taka stöðuna á öllum þeim skemmtilegu viðburðum og opnunum sem á dagskrá verða.

Ég er þó einna spenntust fyrir hattakeppninni, er sjálf búin að taka fram höfuðfat og hlakka til að sjá fjölbreytnina í höttum þetta árið.

Dagskrána alla má sjá hér.


Geðheilbrigðisdagurinn á laugardaginn

Málþing um geðheilbrigsðisþjóunustu á Austurlandi verður haldið í grunnskólanum á Reyðarfirði á laugardaginn, en það er samstarfsverkefni HSA, Félagsþjónustu Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, ME, VA, Virk og StarfA. Sex erindi eru á dagskrá auk þess sem Listaakademía Verkmenntaskóla Austurlands verður með listgjörninga. Hér má lesa viðtal við Þórodd Helgason, fræðslustjóra í Fjarðabyggð, en hann á stæti í undirbúningshóp málþingsins.


Kökuhlaðborð á Hreindýraslóðum

Kökuhlaðborð verður á Hreindýraslóðum á Skjöldólfsstöðum á laugardaginn milli klukkan 14:00 og 17:00. Lesið verður upp úr nýjum austfirskum bókum milli klukkan 15:00 og 16:00.


Kór Reyðarfjarðarkirkju heldur tónelika á Eskifirði

Kór Reyðarfjarðarkirkju heldur tónleika í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudaginn. Kórinn heldur til Manchester í október til þess að syngja með staðarkórnum þar og langar kórfélaga að syngja fyrir vini og vandamenn hér heima áður en haldið er ytra. Á dagskránni eru gömul og ný dægurlög í bland við þjóðleg og alþjóðleg lög.



One is On í Skaftfelli

Sýning Unnar Andreu, One is On, opnaði í Bókabúðinni-verkefnarými í Skaftfelli á fimmtudaginn. Sýningarstjóri er Hrafnhildur Gissurardóttir. One is On samanstendur af þremur videoverkum sem sýnd verða í verkefnarými Skaftfells og tveimur skúlptúrverkum sem staðsett verða á hinum ýmsu stöðum í náttúrunni umhverfis Seyðisfjörð. Verk Unnar Andreu fjalla á mismunandi hátt um hverfandi dýpri tengsl milli manna á tímum vaxandi narsissma. Sýningin verður einnig opin á laugardaginn milli klukkan 12:00 og 14:00. Nánar má lesa um sýninguna hér.



Borrowed Brass Blues Band í Egilsbúð

Hljómsveitin Borrowed Brass Blues Band verður með tónleika í Egilsbúð á laugardagskvöldið. Sveitin kemur frá Reyðarfirði og er skipað þeim Friðriki Jónssyni á Gítar, Jóni Hafliða Sigurjónssyni á bassa, Hinriki Þór Óliverssyni á trommur og Jóhönnu Seljan Þóroddsdóttur sem syngur. Bandið leikur blús, eðalrokk og ýmis konar nostalgíur. Nánar má lesa um viðburðinn hér.