Fjölbreytt úrval af kartöflum á hátíð í Vallanesi

Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, sem reka þar matvælafyrirtækið Móður Jörð, efna til Jarðeplahátíðar á laugardag. Þar getur fólk kynnt sér fjölbreytt úrval af kartöflum, kynnst sögu þeirra á Íslandi og smakkað á ýmsum réttum úr þeim.

Eygló Björk segir að þau hjónin hafi ætíð efnt til uppskeruhátíðar á hverju hausti og nú sé kominn tími til að hafa kartöflur í öndvegi.

„Við höfum sögulegar heimildir fyrir því að kartöflu- og kálrækt var stunduð í Vallanesi strax árið 1752 þannig að prestur hér á þeim tíma hefur verið meðal frumkvöðla í ræktun þeirra á Íslandi,“ segir Eygló Björk.

Þau hjónin hafa ætíð ræktað klassískar íslenskar tegundir eins og Gullauga og Rauðar íslenskar. „Við höfum verið að bæta við þá flóru og höfum nú komið okkur upp útsæði af tegundum á borð við Blálandsdrottingar, Kónga bláar og Norskar rauðar,“ segir Eygló Björk.

Fram kemur í máli hennar að alls verða kynntar nær tugur af mismunandi tegundum af kartöflum á hátíðinni. „Ætlunin er að gestir velji fallegasta jarðeplið. Við köllum eftir fleiri ræktendum sem viðhalda forvitnilegum tegundum af kartöflum og hvetjum þá til að koma á laugardaginn og vera með í þessum lið dagskránnar," segir Eygló Björk.

Um er að ræða samstarfsverkefni Móður jörð og Matarauðar Austurlands. Meðal þess sem er í boði er sögustund á vegum Skúla Björns Gunnarssonar forstöðumanns Gunnarstofnunar. Og Karl Þorsteinsson mateiðslumeistari á Nielsen mun bjóða upp á forrétti, aðalrétti og eftirrétti búna til úr kartöflum.

Hátíðin hefst á hádegi og stendur fram til klukkan fjögur um daginn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.