![](/images/stories/news/umhverfi/Blöðrur.jpg)
Fjöldi viðburða á þjóðhátíðardaginn og um helgina
Þjóðhátíðadagurinn lengir helgina og hefst hún því með almennum hátíðahöldum víðsvegar um Austurland á morgun.
Fjölbreytt hátíðadagskrá verður á Egilsstöðum á morgun, sem hefst á morgunmessu í Egilsstaðakirkju klukkan tíu, þaðan sem verður svo gengið í Tjarnargarðinn þar sem Grímur, nýstofnað leikfélag, sýnir Lagarfljótsorminn. Hátíðadagskrá hefst svo í Lómatjarnargarði klukkan 13:00.
Sumarsýning Sláturhússins opnar klukkan 16:00, en nánar má lesa um hana hér. Dagskrána fyrir Fljótsdalshérað má sjá í heild sinni hér.
Þjóðhátíðardeginum í Fjarðabyggð verður fagnað í Fáskrúðsfirði í ár með glæsilegri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Dagskráin hefst með víðavangshlaupi fyrir yngri kynslóðina klukkan 13:00. Skrúðganga verður frá Sumarlínu klukkan 13:45 að hátíðarsvæðinu Fram. Nánar má lesa um dagskrána hér.
Á Seyðisfirði hefst hátíðardagskráin klukkan 10:00 þegar blómsveigur verður lagður á leiði BJörns Jónssonar frá Firði. Klukkan 11:00 hefst hátíðarhlaup fyrir krakka og dagskrá hefst í skrúðgarðinum við Seyðisfjarðarkirkju eftir hádegi. Nánar má lesa um dagskrána hér.
Á Breiðdalsvík verða tónleikarnir Rock the boat að kvöldi þjóðhátíðadagsins, en nánar má lesa um þá hér í frétt sem birtist á vefnum fyrr í vikunni.
Helgin
Tónleikagleðin heldur áfram í Fjarðaborg á Borgarfirði um helgina þegar Prins Póló mætir ásamt hrið sinni og gerir allt vitlaust. Tónleikarnir verða á laugardaginn og hefjast klukkan 22:00. Nánar má fylgjast með þeim hér.
Hörkustuð verður í Egilsbúð á laugardaginn þegar Stuðlabandið spilar fyrir dansi, en í auglýsingu segir að það sé líklega eitt hressasta band íslandssögunnar og þeir lofi hita, svita, stemningu og almennri gleði.
Enn á ný býður Alcoa Fjarðaál öllum könum til veislu í álverinu í tilefni kvenréttindadagsins sem er sunnudaginn 19. Júní. Móttaka hefst klukkan 14:45 og kaffið hefst klukkan 15:00. Ávörp fæytja Þórunn Egilsdóttir þingkona, Ruth Elfarsdóttir fjármálastjóri Fjarðaáls, Helga Guðrún Jónasdóttir markaðs- og upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar og Bríet Ósk Moritz rafiðnaðarkona hjá Fjarðáli.