![](/images/stories/news/2015/Sköpunarmiðstöðin.jpg)
„Flestir fara héðan himinlifandi“
„Þetta er algerlega yndislegt en vissulega stundum svolítið yfirþyrmandi,“ segir Rósa Valtingojer, verkefnastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði, en listamannadvölin sem þau bjóða upp á er orðið fullbókuð fyrri hluta árs.
Sköpunarmiðstöðin hefur undanfarin misseri boðið upp á listamannadvöl þar sem listamenn allsstaðar að úr heiminum geta sótt um að dvelja á Stöðvarfirði á vegum miðstöðvarinnar og vinna að sínum verkum, mánuð í senn. Hingað til hefur einungis verið pláss til að taka við þremur listamönnum í einu.
„Í september opnuðum við stúdíó sem gerir okkur kleift að taka við sjö listamönnum þar sem sex þeirra deila vinnuaðstöðu auk þess sem boðið er upp á eitt pláss hverju sinni í einkastúdíói. Við erum svo með tvö einbýlishús á staðnum þar sem þeir búa,“ segir Rósa.
Rósa segir að aðsóknin hafi farið rólega af stað en nú sé hún orðin umfram það sem þau geta tekið við.
„Það er allt uppbókað hjá okkur fram í júní, eða þann tíma sem við höfum haft opið fyrir umsóknir. Fljótlega munum við svo opna á seinni hluta ársins. Til okkar koma listamenn frá öllum heimshornum til þess að vinna að allskonar verkefnum, allt frá myndlist, ljósmyndun, skrifum upp í tónlist og dansi.“
Rósa segir að alltaf skapist skemmtileg stemmning innan hópanna. „Stundum enda þau á að vinna saman að einhverjum verkefnum og það er alveg frábært þegar það gerist. Núna eftir að þau eru orðin fleiri halda þau líka meira hópinn og hafa ofan af fyrir sér, þannig að við þurfum síður að halda þeim félagsskap. Við erum líka komin með starfsmann sem sér um þetta verkefni og það er mikill munur.“
Sumir koma aftur
Aðspurð hvernig listamennirnir upplifi dvölina segir Rósa; „Flestir fara héðan himinlifandi, það er alger samnefnari. Sumir hafa meira að segja komið aftur í heimsókn til okkar, það myndast skemmtileg vinabönd. Aðrir fara út í heim og halda fyrirlestra um upplifun sína sem spyrst út þannig að sífellt fleiri vilja koma til okkar.“
Stöðug uppbygging er í Sköpunarmiðstöðinni en listamannadvölin skapar innkomu til þess að hún geti átt sér stað. Nú eru tilbúin trésmíðaverkstæði, járnsmíðaverkstæði, leirkeraverkstæði, textilstúdíó, myrkrakompa og fjölnotasalur. Eitt fullkomnasta hljóðver landsins er í byggingu sem áætlað er að tekið verið í gagnið á árinu.
Ný heimasíða var tekin í notkun nýlega undir slóðinni inhere.is en þar má lesa viðtöl við listamennina auk þess að greina frá því sem í gangi er í miðstöðinni. Einnig má nálgast frekari upplýsingar á Facebooksíðu miðstöðvarinnar.