Flestir þurfa einhvern tíman á sjálfsstyrkingu að halda

Tveir sérfræðingar í klínískri sálfræði halda tveggja daga námskeið á Austurlandi í sjálfsstyrkingu og bættum samskiptum. Sérfræðingarnir segja að fólk viti oft hvað það þurfi að gera til að efla sjálft sig en átti sig ekki á hvernig það geti hugsað hlutina öðruvísi.


„Þetta nýst ekki um að vera í vanda heldur að vilja auka færni sína. Flestir þurfa einhvern tíman í lífinu að styrkja sig eða bæta samskiptin. Það er aldrei of seint að læra og þetta er eitt af því sem við lærum ekki endilega heima hjá okkur eða í skóla,“ segir Álfheiður Steinþórsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði við Sálfræðistöðina í Reykjavík.

Hún rekur stöðina ásamt Guðfinnu Eydal sem einnig kennir á námskeiðinu. Það hófst í morgun og er fullsótt en það er haldið í samvinnu við Starfsendurhæfingu Austurlands (StarfA). Guðfinna og Álfheiður hafa haldið námskeiðið fyrir starfsmenn fjölda stofnana og fyrritækja. Það fyrsta var á Hótel Loftleiðum árið 1979.

„Við erum enn með námskeið þar og eins og við segjum þá erum við löngu búnar að eiga silfurbrúðkaup. Þótt við höfum endurskoðað og endurbætt námskeiðið er rauði þráðurinn yfirleitt sá sami.

Við hittum fólk jafnvel áratugum eftir námskeið hjá okkur og það segir okkur að það hafi tekið allt annan kúrs í lífinu eftir námskeið,“ segir Guðfinna.

Þær segja aðferðirnar sem kenndar eru á námskeiðinu gagnast fókli til að takast á við ýmislegt í lífinu, bæði í einkalífi og starfi.

„Fólk áttar sig oft ekki á því hvernig hægt er að hugsa hlutina öðruvísi. Það veit að það þarf að geta treyst sér í hluti, geta sagt hluti og hugsað jákvætt en veit ekki hvernig á að gera það.“

Lykilatriðið í aðferðafræði Guðfinnu og Álfheiðar er einstaklingsmat þar sem styrkleikar og veikleikar hvers og eins koma fram og síðan er unnið út frá því.

„Það nýtist ekki endilega að vera með almenna fyrirlestra heldur eitthvað sem hver og einn getur notað fyrir sig. Þótt hver og einn sé sérfræðingur í sjálfum sér og þekki sína styrkleika og veikleika getur verið gott að fá þá skjalfesta frá einhverjum utanaðkomandi sem þekkir þig ekki neitt.

Það gefur fólki oft aukinn kjark að vita hvað það á að á að leggja áherslu á. Þannig finnur það mikilvægi sitt á annan hátt og kjark til að tileinka sér leiðirnar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.