Skip to main content

Fljótsdalshérað í úrslit Útsvars: Steini bóndi gegn Davíð Þór

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. maí 2016 21:06Uppfært 07. maí 2016 21:09

Lið Fljótsdalshéraðs tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrslitum Útsvars með 81-66 sigri á Fjarðabyggð í æsilegri viðureign. Augu margra voru á miðjumönnum liðanna, Davíð Þór Jónssyni og Þorsteini Bergssyni.


Fljótsdalshérað var yfir eftir bjölluspurningarnar en Fjarðabyggð tók frumkvæðið í leiknum. Að loknu orðaruglinu var staðan jöfn, 39-39.

Fjarðabyggð komst yfir á ný í valflokkunum með því að stela flokknum „horn“ af Héraðsliðinu. Fékk það meðal annars fimm stig fyrir spurning um hníflóttar kindur, spurning sem fjárbóndinn Þorsteinn Bergsson frá Unaósi hefði eflaust viljað fá.

En keppnin snérist aftur í stóru spurningunum. Bæði lið fengu 10 stig í fyrstu spurningu með því að nota símavininn. Fljótsdalshéraðs vissi síðan um Bárð þann sem Bárðarbunga er kennd við og svaraði síðan tíu stiga spurningu rétt.

Fjarðabyggð gat jafnað með að svara síðustu spurningunni rétt. Þar var spurt um flúxuslistastefnuna. Fjarðabyggð var grátlega nærri með því að svara flúx en það dugði ekki til.

Fljótsdalshérað mætir Reykjavík í úrslitum 20. maí.