Fljótsdalshérað: Pressa á að tapa ekki fyrir Fjarðabyggð
Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð mætast í úrslitum spurningakeppninnar Útsvars í Sjónvarpinu í kvöld. Björg Björnsdóttir viðurkennir að mikil pressa sé úr samfélaginu að vinna nágrannana.
„Almáttugur, já. Hvar sem ég hef komið í vikunni er sagt við mig: „þið verðið að taka þetta. Þið verðið að vinna Fjarðabyggð.“ En fólk gerir sér líka grein fyrir að þetta er verðugur andstæðingur,“ segir Björg.
„Fjarðabyggð er með hörkulið. Þetta eru eintómar mannvitsbrekkur og að auki beintengd við almættið.
Björg myndar lið Fljótsdalshéraðs ásamt Þorsteini Bergssyni og Hrólfi Eyjólfssyni. Liðið æfir seinni partinn eins og venjan er fyrir keppni. „Steini flýgur seinni partinn í dag. Ef Bombardierinn bilar ekki þá erum við klár.“
Reykjavík lagði Árborg í hinni undanúrslitakeppninni í síðustu viku. Úrslitaviðureignin verður síðan 20. apríl.
„Það gæti orðið dagsetning fyrir Steina því sauðburður stendur þá sem hæst. Annars gleðst ég yfir því að það verður fulltrúi Austurlands í úrslitunum. Eigum við ekki að segja það sé það jákvæða.“