![](/images/stories/news/folk/Hákon_Hansson.jpg)
Flygilvinir blása til tónleika
„Það er gaman að geta fengið svo góða listamenn til okkar, en Tal Strauss er úrvals píanóleikari,“ segir Hákon Hansson, flygilvinur á Breiðdalsvík.Píanóleikarinn Tal Strauss, sem dvalið hefur í Sköpunarmiðstöððinni á Stöðvarfirði að undanförnu, heldur píanótónleika í Frystihúsinu á Breiðdalsvík í kvöld klukkan 20:00. Hann hefur lokið einleikaraprófi frá frægum tónlistarháskóla, Amsterdam Conservatorium.
„Flygilvinirnir eiga nú skuldlausan glæsilegan Estonia flygil sem gerir okkur mögulegt að fá hingað jafn glæsilega listamenn og Tal Strauss,“ segir Hákon.
Hákon segir að starfsemi Frystihússins skipti samfélagið miklu máli og sé vonandi komin til þess að vera.
„Allt sem þarna hefur verið haldið hefur tekist vel, hvort sem það eru skemmtanir eða ráðstefnur. Það er góður hljómburður í salnum og nóg pláss. Við Flygilvinir vonumst til þess að sjá sem flesta og njóta kvöldstundar með okkur.“
Aðgangur er ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum við innganginn ef einhver vill styðja við menningarstarfsemi þessa.
Á efnisskrá tónleikanna eru eftirtalin verk:
Back: Ensk svíta No.2 in A moll, BWV807
Beethoven: Píanósónata nr 8 - Patetique-Op.13
Schumann: Gletta (Humoresque) op.20
Hér er hægt að heyra tóndæmi.