![](/images/stories/news/2016/Flygilvinir.jpg)
Flygilvinir vilja efla tónlistarlíf á Breiðdalsvík
Fjölmennir víglsutónleikar Flygilvina voru haldnir á Breiðdalsvík um liðna helgi, en Hákon Hansson, héraðsdýralæknir og oddviti hefur verið í forsvari fyrir hópinn.
Hákon er mjög ánægður með flygilinn. „Þegar Friðrik Árnason opnaði þennan fína samkomusal í gamla frystihúsinu hérá Breiðdalsvík fannst mönnum ómögulegt annað en að í honum væri gott hljóðfæri. Friðrik, í samvinnu við Baldur Pálsson sem er mikill tónlistarunnandi hér í bænum, fann þennan fína notaða flygil á verði sem að þótti vera viðráðanlegt fyrir þetta litla samfélag. Í framhaldi af því voru samtökin Flygilvinir í Breiðdal stofnuð.
Í félaginu eru nú 45 einstaklingar sem allir hafa lagt sitt af mörkum auk þess sem önnur fjáröflun hefur einnig verið í gangi.
Við vorum svo heppin að fá Peter Maté, fyrrverandi tónlistarskólastjóra og organista hér á Breiðdalsvík og á Stöðvarfirði til þess að koma og vígja hljóðfærðið, en hann er einn af færustu píanóleikurum landsins. Hann er reyndar orðinn yfirmaður tónlistardeildar Listaháskóla Íslands og að mestu hættu að spila opinberlega vegna anna, en hann féllst á að æfa upp dagskrá og koma hingað, en það er mikill heiður fyrir okkur,“ segir Hákon.
Hefði viljað læra á hljóðfæri sjálfur
Hákon er sjálfur mikill tónlistaunnandi og horfir björtum augum á menningarlíf Breiðdælinga í framtíðinni.
„Mér bauðst að læra á píanó þegar ég var unglingur en því miður þáði ég það ekki og ég hef eiginlega séð eftir því alla tíð síðan. Ég hef hins vegar mjög gaman af tónlist og hlusta mikið og fer jafnvel til útlanda til þess að hlusta á tónlist sem ég hef áhuga á, bæði á óperur og píanótónleika.
Við stefnum á það að halda reglulega tónleika í framtíðinni og það eru oft tónlistarmenn sem eru að fara um landið og við ætlum að leggja mikla áherslu á að þeir stoppi einnig hjá okkur og haldi tónleika hér á Breiðdalsvík, auk þess sem við stefnum á að halda árlega tónleika sem skipulagðir eru af okkur, þessum Flygilvinum.
Það hefur verið ágætis aðsókn þegar hér hafa verið haldnir tónleikar, hér er góður tónlistarskóli starfandi og við vonumst svo sannarlega til þess að geta byggt upp öflugt tónlistarlíf á staðnum, það er minn draumur og ég veit að hann er það hjá fleirum.“