Flytur frumsamin tónverk út frá austfirsku umhverfi

Fiðluleikarinn Eva Mjöll Ingólfsdóttir heldur tvenna tónleika á Austfjörðum í dag og á morgun. Á efniskránni eru verk sem hún hefur samið eftir að hafa dvalist eystra.


Eva Mjöll hefur undanfarna daga dvalist á Vopnafirði og komið fram á Vopnaskaki. Tónleikar hennar í Miklagarði klukkan fimm í dag slá botninn í hátíðina. Hún kemur þar fram með gítarleikaranum Charlie Rauh.

Á efniskránni eru bæði frumsamin verk sem og verk eftir aðra. Eva Mjöll og Charlie búa í New York en Eva segist sækja mikinn innblástur til Íslands fyrir verkum sínum. Eitt verkið byggir á tröllasögum og annað varð til út frá eldgosinu í Miklahrauni.

Á Djúpavogi flytur Eva Mjöll einnig verk sem hún hefur unnið með videolistakonunni Rakel Steinarsdóttur og ljóðskáldinu Gunnbjörgu Óladóttur. Þær dvöldu á Djúpavogi síðasta haust og koma nú austur „til að skila efninu.“

„Það er gaman fyrir mig að koma til Íslands, vera úti í náttúrunni og kynnast nýjum stöðum,“ segir Eva Mjöll.

Þær dvelja saman og safna efni. Eva Mjöll semur tónlist út frá myndum Rakelar og síðast bætast ljóð Gunnbjargar við. Samvinnan fer að miklu leyti fram í gegnum netið en Eva Mjöll segir það alltaf gagnlegt fyrir þær að hittast.

Þær hafa því nýtt tímann á Vopnafirði vel, bæði til að leggja lokahönd á verkin um Djúpavog en eins að safna nýju efni sem tengist Vopnafirði sem stefnt er að því að flytja þar eftir ár.

„Við förum út um allt til og reynum að finna gersemar til að mynda. Ég reyni líka alltaf að vera með tónleika á hverjum stað og kynnast fólkinu og samfélaginu.

Í tónlistinni túlka ég hughrifin sem ég verð fyrir á stöðunum. Tónlistin sem tengist Djúpavogi er hugljúf því það sem ég vildi segja þegar ég horfði á myndefnið þaðan.“

Á efniskránni eru einnig klassískari verk, meðal annars eftir sovéska tónskáldið Dmitry Shostakovich. Gítarleikarinn Charlie Rauh leikur undir með Evu Mjöll. Hann er Austurlandi góðu kunnur eftir að hafa dvalist í listamannsíbúðinni á Skriðuklaustri fyrir nokkrum árum en í gegnum þá dvöl kynntist hann trúbadornum Svavari Knúti og hafa þeir spilað töluvert saman.

„Ég er alltaf spenntur fyrir að koma aftur austur. Ég kynntist þessu svæði áður en ég kannaði Reykjavík,“ segir hann.

Hann og Eva Mjöll kynntust síðan í gegnum Svavar Knút sem var að spila í New York. „Við höfðum áhgua á ákveðinni tónlist sem við vildum koma á framfæri. Það er ár síðan við byrjuðum að æfa saman fyrst, höfum spilað tvisvar saman í New York og erum að vinna í nýju efni,“ segir hún.

„Það er ekki auðvelt að spila verk eins og eftir Shostakovich. Við höfum æft mikið saman og haft gaman af áskoruninni,“ bætir Charlie við.

Hljóðfærin hans eru nokkuð sérstök. Hauslaus gítar með smáum búk og pínulítill magnari. „Ég á ekki bíl og þarf því að bera allt á milli staða í New York. Ég varð að finna lausnir á því. Flugfélögin hleypa manni ekki alltaf um borð með gítarana og því lét ég sérsmíða þennan fyrir mig.“

Tónleikarnir á Vopnafirði hefjast klukkan 17:00 í Miklagarði í dag en á Djúpavogi klukkan 20:00 annað kvöld í Löngubúð.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.