![](/images/stories/news/2016/fmbelfast.jpg)
FM Belfast í Havarí: „Ég held að þakið fari af“
Á laugardaginn heldur Hljómsveitin FM Belfast tónleika í HAVARÍ á Karlsstöðum í Berufirði. Ívar Pétur Kjartansson, Seyðfirðingur og einn af meðlimum hljómsveitarinnar, segir gaman að fá tækifæri til að koma austur.
Hljómsveitin FM Belfast sem stofnuð var árið 2005 hefur vakið athygli fyrir líflega sviðsframkomu en hljómsveitin spilar elektóníska danstónlist. Meðlimir hljómsveitarinnar eru fimm um þessar mundir, eða fimm manna kjarni eins og Ívar Pétur orðar það þar sem það eru gjarnan mun fleiri sem koma fram með sveitinni. „Við verðum allavega sjö eða átta á sviði um helgina. Ég, Lóa Hlín, Árni Rúnar og Örvar ásamt Birni og Sigbirni, en þeir eru betur þekktir sem Borko og Hermigerfill.“
Hljómsveitin hefur ekki spilað oft á Austurlandi en Ívar Pétur segir að það sé gaman að fá tækifæri til að koma Austur. „FM Beslfast spilaði á LungA fyrir mörgum árum, en þá bókaði ég þau einmitt. Svo nokkrum árum síðar byrjaði ég að spila með þeim og við spiluðum aftur á LungA eftir það. Við höfum ekki farið oft austur en það er gaman fyrir mig að koma og vera svona nálægt heimahögunum,“ segir Ívar Pétur.
Ívar segist búast við feikna stuði og hvetur fólk til að kaupa miða í forsölu þar sem ekki komist mjög margir að í hlöðunni á Karlsstöðum. „Þetta verður geðveikt. Þetta er svona fjölskilduferð hjá okkur, við ætlum öll að mæta með börnin og makana og gista hjá þeim Svavari og Berglindi á Karlstöðum um helgina.“
Á Karlsstöðum ráða ríkjum Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson stundum kennd við hljómsveitina Prins Póló. Berglind segir miðasöluna hafa tekið mikinn kipp í dag. „Það er mikikið hringt og verið að spyrjast fyrir líka, svo ég hef verið að hvetja fólk til að kaupa í forsölu. Hlaðan tekur ekki endalaust við og leiðinlegt ef fólk leggur á sig langt ferðalag og fær ekki miða.“
Berglind lofar miklu stuði á laugardaginn. „Ég held að þakið fari af, þetta band nær öllum með sér frá fyrsta tóni. Þú þarft allavega að vera mikill fýlupoki til að láta þér leiðast“ segir hún að lokum.