Skip to main content

Fögnuðu járnbrúðkaupi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. jún 2021 15:39Uppfært 14. jún 2021 16:30

Hjónin Sölvi Aðalbjörnsson og Sigurbjörg Sigurbjörnsdóttir frá Egilsstöðum fögnuðu sunnudaginn 6. júní 70 ára brúðkaupsafmæli sínu en það telst járnbrúðkaup.


Þau opinberuðu trúlofun sína í janúar 1951 en voru gefin saman í Reykjavík 6. júní. Vinnuveitandi Sölva aðstoðaði ungu hjónin og fékk handa þeim klæðnað úr Þjóðleikhúsinu fyrir tilefnið.

Sölvi ólst upp á Unaósi í Hjaltastaðaþinghá en Sigurborg á Gilsárteigi í Eiðaþinghá. Þau eru bæði fædd árið 1929.

Þau urðu síðan meðal frumbyggja í Egilsstaðaþorpi þar sem þau byggðu árið 1953 húsið Heiðmörk. Sölvi notaði meðal annars rekavið í dyr, glugga og sperrur hússins.

Vel fer á að þau hjónin hafi fagnað járnbrúðkaupi enda Sölvi járnsmiður. Hann stofnaði og rak Vélaverkstæðið Víking á Egilsstöðum auk þess sem listaverk hans úr málmi hafa löngum vakið lukku meðal Héraðsbúa. Þá var hann meðal stofnenda byggingafélagsins Brúnáss.

Hjónin búa nú á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði.

solvi sigurbjorg jarnbrudkaup 0007 web