Fór á níu þorrablót eitt árið

Þorrinn er genginn í garð með öllum sínum hefðum en fyrstu þorrablót fjórðungsins voru um síðustu helgi. Flestir fara á eitt blót, margir á tvö en aðrir, eins og Lonneke Van Gastel á Egilsstöðum, fer gjarnan á fleiri.


Lonneke er frá Hollandi en hefur búið á Íslandi í sextán ár með hléum. Hún er búsett á Egilsstöðum, er sjúkraþjálfari og rekur stofuna Heilsuleiðir. Lonneke hefur mikið dálæti á þorrablótum en eitt árið gerði hún sér lítið fyrir og skellti sér á níu blót.

„Ég flutti til Íslands til að vinna eftir að ég útskrifaðist sem sjúkraþjálfari en það var enga vinnu að fá í mínu heimalandi. Fyrst settist ég að í Keflavík en þar er ekki þessi mikla þorrablótsmenning. Ég flutti svo til Vopnafjarðar og þar kynntist ég þessari menningu,“ segir Lonneke.

Spurð um þorramatinn segir Lonneke: „Ég man að á fyrsta blótinu var ég mjög bjartsýn og fékk mér allt saman á diskinn. Það verður að segjast að mér fannst hann ekki góður til þess að byrja með, allt saman eins. Svo bara hélt ég áfram að borða matinn og lærði að meta hann. Mér fannst hákarlinn til dæmis ógeðslegur fyrst en það var ekkert annað í stöðunni en að læra að borða hann á Vopnafirði, enda mikil hákarlsmenning þar.“

„Mér þykja þau öll skemmtileg“
Lonneke fór á þorrablótið á Egilsstöðum þegar hún flutti þangað. „Ég fór strax á blót og var kosin í nefnd. Það var mjög skemmtilegt og mikil upplifun – að kynnast öllu þessu fólki og sjá íþróttahúsið umturnast í veislusal.“

Árið 2009 fór Lonneke á níu þorrablót. „Rakel, vinkona mín frá Hollandi og sjúkraþjálfari sem hafði verið búsett hér á Egilsstöðum, var að fara aftur heim. Henni þykja þorrablót mjög skemmtileg, jafnvel skemmtilegri en mér, þannig að við ákváðum bara að fara á eins mörg og við gætum áður en hún færi. Við náðum sjö en svo bætti ég tveimur við eftir að hún fór. Þetta ár fór ég semsagt á öll blótin á Héraði, eitt á Borgarfirði og svo með 4x4 klúbbnum í Kverkfjöll.“

Lonneke segir eðlilega mikinn mun vera á Egilsstaðablótinu og sveitablótunum. „Blótið á Egilsstöðum er meira eins og árshátíð með þorramat. Mér þykja þau öll skemmtileg en finnst enn meira gaman á sveitablótunum. Ég ætla nú bara á þrjú í ár, hér á Egilsstöðum, í Fljótsdal og Tungu, það er alveg nóg.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.