Fór gegnum hraðnámskeið í „Egilsstaðir 101“

Vala Gestsdóttir, framkvæmdastjóri Ormsteitis er í yfirheyrslu Austurfréttar þennan föstudaginn.



Vala segist hafa verið á tímamótum í sínu lífi þegar hún sá starfið auglýst. „Ég sótti um og stuttu síðar fékk ég símtal þar sem ég var boðuð í viðtal. Ég varð nokkuð hissa og gerði mér grein fyrir því að í raun vissi ég ekkert um hvað málið snérist, ég hafði aðeins komið þrisvar eða fjórum sinnum til Egilsstaða og þá aðeins í stutt stopp í hringferðinni.

Ég hafði heldur aldrei komið á Ormsteiti og ég vissi ekkert um það, en úr varð að ég fékk starfið og ákvað að slá til. Það má segja að ég hafi í kjölfarið farið á hraðnámskeið í „Egilsstaðir 101“ eða í samfélaginu Fljótsdalshéraði – en það að taka við starfi sem þessu felur meðal annars í sér nauðsyn þess að tala við marga og öðlast skilning á því hvernig hlutirninr ganga fyrir sig. Það þarf að setja sig í samband við bæjarstjórann, Gámafélagið, leigja ferðaklósett, panta kleinur og allt þar á milli, en þá meina ég allt,“ segir Vala.

Vala segist hafa öðlast ómetanlega reynslu og að hún sé afar þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. „Þetta hefur verið mjög krefjandi en það sem upp úr stendur er mikil gleði og sátt yfir því að fá að dvelja á nýjum stað og kynnast yndislegu fólki. Eftir situr í mér mikil auðmýkt yfir því að fá að takast á við þetta mikla ævintýri sem Ormsteiti er. Takk!“


Fullt nafn: Vala Gestsdóttir.

Aldur: 40 ára.

Starf: Tónskáld og verkefnastjóri.

Börn: Lilja Sól Einardóttir.

Kaffi eða te? Kaffi.

Marengsterta eða brauðterta? Brauðterta.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? Tvær stjörnur – Megas.

Mesta undur veraldar? Veröldin eins og hún leggur sig, en stjörnurnar og sólin vekja undrun mína og snerta mig með fegurð sinni reglulega.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Tímaflakk.

Besta bók sem þú hefur lesið? Sjálfstætt fólk.

Hver er þinn helsti kostur? Bjartsýni.

Hver er þinn helsti ókostur? Pínu frek.

Markmið ársins? Að halda áfram að þroskast og að muna að njóta lífsins, hvers einasta dags.

Hvað er í töskunni þinni? Vá rosa mikið bull í bland við ekki bull.

Hvað heillar þig? Lífið og ævintýrin sem það hefur upp á að bjóða í hversdagsleikanum.

Ef þú fengirhitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Öööö.... úff.... pass.... alveg nóg að díla við nútímann einhvernveginn.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Einlægni.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Mér finnst húsverk ekkert leiðinleg, ákveðin jarðtenging sem fylgir því að þjóna sjálfum sér og sínum.

Hvað hræðist þú? Að missa ástvini.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Enginn sérstakur, uppáhaldsdagurinn minn í vikunni er yfirleitt sá dagur sem ég er vel útsofin, líður vel og ég fæ að skapa, tjá mig og njóta þess að vera til.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Skapa tónlist og alltaf endalaust meiri tónlist, búa annarstaðar á Íslandi en í Reykjavik og svo auðvitað þetta klassíska að fá að sjá eins mikið af heiminum og ég möglega get, það er af of mörgu að taka til að segja eitthvað þrennt.

Duldir hæfileikar? Allt upp á borðinu held ég.

Af hverju ætti fólk að skella sér á Ormsteiti? Afhverju ekki? Ormsteiti er frábær fjölskylduhátíð í fallegu umhverfi og það er eitthveð svo fallegt við að koma saman í sumarlok, styrkja fjölskyldu og vinabönd áður en haldið er inn í nýjan vetur. Sjáumst á Ormsteiti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.