Foreldramorgnar nauðsynlegur taktur í tilverunni

Nýbakaðir foreldrar á Fáskrúðsfirði hittast vikulega með börnin sín í safnaðarheimili Fáskrúðsfjarðarkirkju og segja foreldramorgnana vera nauðsynlegan takt í tilverunni. Sóknarpresturinn Jóna Kristín tekur virkan þátt í starfinu.



„Ég er í þessum töluðu orðum að baka amerískar pönnukökur til þess að fara með í samsætið,“ segir Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur á Fáskrúðsfirði, þegar Austurglugginn náði tali af henni en foreldrar ungra barna á Fáskrúðsfirði hittast alltaf í safnaðarheimilinu á fimmtudagsmorgnum.

Starfið hefur verið á Fáskrúðsfirði af og til í mörg ár en eftir að Jóna Kristín hóf störf hefur það verið alveg stöðugt.

„Ég kom þessu á koppinn aftur því mér þótti það þurfa en ég hóf sambærilegt starf í Grindavík á sínum tíma og var það með fyrstu foreldramorgnum sem haldnir voru á landinu. Þetta hefur fest sig í sessi og rúllar alltaf betur og betur eftir því sem tíminn líður.“

Jóna Kristín bakar gjarnan eitthvað og kemur með færandi hendi. „Ég baka oft brauð en amerísku pönnukökurnar eru einnig afar vinsælar. Svo koma foreldrarnir oft með eitthvað þannig að þetta endar oft í mikilli veislu,“ segir Jóna Kristín og hlær.

Foreldramorgnar eru haldnir víða um land og gjarnan í húsnæði kirkjunnar en það er ekki alltaf sem sóknarpresturinn er hluti af því starfi.

„Mér finnst þetta tengja mig við unga fólkið á staðnum sem maður missir oft tengslin við eftir fermingu. Mér finnst þetta hjálpa til við að halda samskiptum áfram á öðrum forsendum og foreldramorgnarnir eru mikilvægur hluti af samfélaginu og góður vettvangur fyrir foreldra að koma saman vikulega, bera saman bækur, hafa félagsskap hvert af öðru og leyfa litlu krílunum að kynnast.“

Foreldramorgnarnir gefa Jónu Kristínu mikið. „Ég finn mig ágætlega í ömmuhlutverkinu en ömmubörnin mín eru langt í burtu þannig að ég fæ að knúsa þessi í staðinn. En það gerist heldur ekkert þó svo ég komist ekki, foreldrarnir mæta hér fyrir það.“


Sakna Jónu Kristínar ef hún á ekki heimangengt

Tinna Hrönn Smáradóttir er ein þeirra sem mætir samviskusamlega á foreldramorgnana á Fáskrúðsfirði. Tinna Hrönn er með þeim reynslumestu en hún er nú í fæðingarorlofi með sitt þriðja barn.

„Þetta er fastur punktur í vikunni, það er svo gott að komast aðeins út og spjalla. Við erum ekki með neitt skipulag en eðlilega miðast umræðuefnið oftast við lúra, bleiur og mauk. Það er nauðsynlegt að hitta aðra foreldra sem eru í sömu stöðu því það nenna alls ekki allir að husta á þetta barnatal sem eru ekki með ung börn.“

Tinna Hrönn segir að foreldrarnir kunni vel að meta aðkomu Jónu Kristínar að starfinu.

„Það er ótrúlega notalegt að hafa hana, hún býr yfir mikilli reynslu enda sjálf fimm barna móðir. Amerísku pönnukökurnar hennar eru ómissandi en við erum líka dugleg að koma með smakk ef við höfum verið í tilraunastarfsemi í eldhúsinu heima. Jóna Kristín kann margar sögur og við söknum hennar mikið þegar hún er ekki með okkur. Við hittumst þó yfirleitt alla fimmtudaga og það er alveg sárasjaldan sem stundirnar falla niður.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.