Skip to main content

Foreldrar til aðstoðar í Egilsstaðaskóla eftir að kennararnir fóru til Helsinki

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. apr 2016 13:41Uppfært 22. apr 2016 09:19

Kennsla var brotin upp í Egilsstaðaskóla í morgun með aðstoð foreldra. Megnið af starfsfólki skólans er í endurmenntunarferð í Finnlandi um helgina.


„Það var mjög auðvelt að fá foreldra í lið með okkur. Við óskuðum eftir fólki ef okkur vantaði í eitthvað sérstakt. Það var ótrúlega gaman að fá foreldra í lið með okkur þar sem hægt var að nýta þeirra sérsvið auk þess sem þeir hjálpuðu við ýmislegt fleira,“ segir Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir, deildarstjóri við Egilsstaðaskóla.

Þorrinn af starfsfólki skólanna á Egilsstöðum, Brúarási og Borgarfirði hélt í morgun til Helsinki í Finnlandi í endurmenntunarferð. Starfsfólkið kynnir sér finnska menntakerfið sem hefur komið frábærlega út í alþjóðlegum samanburði en endurbætur standa yfir á því um þessar mundir.

Þar sem flesta kennara vantaði var skóladagurinn brotinn upp. Nemendur í 1. – 3. bekk voru í vali, nemendur í 4. – 6. bekk gátu valið um áhugasviðsnámskeið en meðal annars var boðið upp á smárétti, litbolta, dans og hjólanámskeið.

Nemendur í 7. – 9. bekk þurftu að leysa þrautir út um allan bæ. Þeirra á meðal voru stelpurnar á myndinni sem þurftu að reima skóreim hjá ókunnugur sem var blaðamaður Austurfréttar. Tíundi bekkur var síðan á skyndihjálparnámskeiði.

Kennslu var hætt á hádegi og á föstudag er starfsdagur í skólanum.

En það er fleira í gangi í skólanum því lið hans keppir í úrslitum Skólahreysti í Laugardalshöll í kvöld. Fyrir Egilsstaðaskóla keppa þau Halla Helgadóttir og Kristinn Már Hjaltason í hraðaþraut, Soffía Mjöll Thamdrup tekur armbeygjur og hreystigreip og Hjálmar Óli Jóhannsson tekur upphífingar og dýfur.

Lovísa Hreinsdóttir hefur þjálfað liðið en Lilý Viðarsdóttir er liðsstjóri í kvöld. Bein útsending hefst á RÚV klukkan 20:00 í kvöld.

„Það er mikil spenna fyrir úrslitunum í kvöld. Liðið fór suður í morgun með flugi. Það er búið að leggja mikla vinnu í æfingar að undanförnu og ætlar sér stóra hluti.“