Foreldrar til aðstoðar í Egilsstaðaskóla eftir að kennararnir fóru til Helsinki

Kennsla var brotin upp í Egilsstaðaskóla í morgun með aðstoð foreldra. Megnið af starfsfólki skólans er í endurmenntunarferð í Finnlandi um helgina.


„Það var mjög auðvelt að fá foreldra í lið með okkur. Við óskuðum eftir fólki ef okkur vantaði í eitthvað sérstakt. Það var ótrúlega gaman að fá foreldra í lið með okkur þar sem hægt var að nýta þeirra sérsvið auk þess sem þeir hjálpuðu við ýmislegt fleira,“ segir Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir, deildarstjóri við Egilsstaðaskóla.

Þorrinn af starfsfólki skólanna á Egilsstöðum, Brúarási og Borgarfirði hélt í morgun til Helsinki í Finnlandi í endurmenntunarferð. Starfsfólkið kynnir sér finnska menntakerfið sem hefur komið frábærlega út í alþjóðlegum samanburði en endurbætur standa yfir á því um þessar mundir.

Þar sem flesta kennara vantaði var skóladagurinn brotinn upp. Nemendur í 1. – 3. bekk voru í vali, nemendur í 4. – 6. bekk gátu valið um áhugasviðsnámskeið en meðal annars var boðið upp á smárétti, litbolta, dans og hjólanámskeið.

Nemendur í 7. – 9. bekk þurftu að leysa þrautir út um allan bæ. Þeirra á meðal voru stelpurnar á myndinni sem þurftu að reima skóreim hjá ókunnugur sem var blaðamaður Austurfréttar. Tíundi bekkur var síðan á skyndihjálparnámskeiði.

Kennslu var hætt á hádegi og á föstudag er starfsdagur í skólanum.

En það er fleira í gangi í skólanum því lið hans keppir í úrslitum Skólahreysti í Laugardalshöll í kvöld. Fyrir Egilsstaðaskóla keppa þau Halla Helgadóttir og Kristinn Már Hjaltason í hraðaþraut, Soffía Mjöll Thamdrup tekur armbeygjur og hreystigreip og Hjálmar Óli Jóhannsson tekur upphífingar og dýfur.

Lovísa Hreinsdóttir hefur þjálfað liðið en Lilý Viðarsdóttir er liðsstjóri í kvöld. Bein útsending hefst á RÚV klukkan 20:00 í kvöld.

„Það er mikil spenna fyrir úrslitunum í kvöld. Liðið fór suður í morgun með flugi. Það er búið að leggja mikla vinnu í æfingar að undanförnu og ætlar sér stóra hluti.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.