Formaður Krabbameinsfélags Austurlands vonast eftir góðri mætingu

Dúkkulísurnar verða meðal þeirra sem koma fram á góðgerðarkvöldi Krabbameinsfélags Austurlands sem haldið verður í Valaskjálf næstkomandi laugardagskvöld.



Anna Alexandersdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, fékk hugmyndina að uppákomunni og heldur utan um hana.

„Krabbameinsfélagið og StarA (Starfsendurhæfing Austurlands) gerðu með sér samstarfssamning og reka saman húsnæði sem bæði félögin eru í. Samningurinn kveður á um að skjólstæðingar Krabbameinsfélagsins geti nýtt sér alla þjónustu StarfA, þar á meðal ráðgjöf, sér að kostnaðarlausu. Ég hef aðeins komið að starfsemi StarfA og kynnst þessu fyrirkomulagi og tel þessa tengingu mikilvæga, en að sama skapi er þetta dýrt. Ég vildi bara leggja mitt að mörkum til þess að létta undir með Krabbameinsfélaginu og þetta varð úr,“ sagði Anna í samtali við Austurfrétt.

 

Góðgerðarkvöldið er mikilvægt fyrir félagið

Alfreð Steinar Rafnsson, formaður Krabbameinsfélags Austurlands, segir góðgerðarkvöldið afar mikilvægt fyrir félagið. „Samstarfssamningurinn er nokkuð dýr og félagsgjöldin standa ekki straum af öllu saman og því verðum við að leita allra leiða til þess að ná endum saman,“ segir Alfreð Steinar.

Hann segist bjartsýnn fyrir laugardagskvöldið og vonast eftir góðri mætingu.

„Allir sem koma að kvöldinu gefa vinnu sína og Þráinn eftirlét okkur húsið endurgjaldslaust, en allir eiga miklar þakkir skildar. Þarna munu stíga á stokk fjölmargir listamenn sem munu gera kvöldið skemmtilegt auk þess sem uppboð verður á staðnum,“ segir Alfreð Steinar. 

Fram koma: Bæjarkvartettinn, Dúkkulísurnar, Elvar Sig, Elma Valgerður, Bjössi Hall, Ásta Evlalía, Friðrik Jónsson, Nanna Imsland, Valli Skúla, Jón Arngríms, Guggi blús. Kynnir verður Unnar Geir Unnarsson

Húsið opnar klukkan 20:00 en dagskráin hefst klukkan 21:00.

Aðgangseyrir er 2500 krónur og verður allur ágóði nýttur í þágu krabbameinsgreindra. Þeir sem vilja styrkja félagið geta lagt inná reikning 0305 - 26 – 1990 - Kt. 700993-2489.

Ljósmynd af Dúkkulísunum tók Styrmir Kári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.