Forréttindi að alast upp á Fáskrúðsfirði
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. ágú 2016 15:12 • Uppfært 04. ágú 2016 15:35
Systurnar Ásdís og Sigurveig Jóhannesdætur eru uppaldar á Fáskrúðsfirði en búa í Hafnarfirði, þeim finnst mikilvægt að koma reglulega heim og myndu búa á Fáskrúðsfirði ef þær fengju að ráða.
Sigurveig hefur aldrei misst af Frönskum dögum og segist ekki ætla að missa af þeim í framtíðinni. Ásdís hefur sára sjaldan misst af hátíðinni en blaðamaður hitti þær systur í Kenderíisgöngunni, sem fram fer á fimmtudegi fyrir Franska daga, þar sem þær buðu göngufólki uppá snafs í gula hverfinu og héldu stutta tölu.
„Kenderíisgangan er í miklu uppáhaldi hjá mér, hér hittir maður alla og fær tækifæri til að rölta um bæinn sinn sem maður eyðir alltof litlum tíma í,“ segir Ásdís og Sigurveig tekur undir. „Maður hittir mikið af fólki sem maður hittir aldrei í annan tíma. Það er svo mikill sjarmi yfir þessu öllu saman, alltaf geðveikt stuð og fólk á öllum aldri kemur saman og skemmtir sér.“
Systurnar segjast alltaf verða miklir Fáskrúðsfirðingar og telja það forréttindi að hafa fengið að alast upp á staðnum. Þær segja það skipta miklu máli að komast reglulega heim á Fáskrúðsfjörð. Báðar eiga þær menn sem eru miklir Hafnfirðingar og segja að í því felst ákveðin togstreita, því þær byggju á Fáskrúðsfirði ef þær fengju að ráða. „Það skiptir mig ótrúlega miklu máli að koma heim og ef ég fengi ein að ráða þá færi ég aldrei héðan. Ég hef verið heppin með það að kærastinn minn hefur komið með mér austur að vinna á sumrin og í haust ætlum við að prófa að flytja heim, hversu lengi við verðum hérna verður tíminn að leiða í ljós,“ segir Sigurveig. „Já, Sigurveig stendur sig nú betur en ég í að fá sinn mann hingað, fyrir mig er það annað hvort Fáskrúðsfjörður eða makinn“ segir Ásdís og hlær.