Forríkir Bretar með loftbrú milli Egilsstaða og Englands

Þrjár einkaþotur í eigu þriggja af ríkustu mönnum Bretlandseyja lentu á flugvellinum á Egilsstöðum í dag. Þeir eiga saman alþjóðlegt efnafyrirtæki og eru eignir þeirra metnar á yfir eina billjón króna.


Þoturnar eru skráðar á flugfélög í eigu Jim Ratcliff, Andy Currie og John Recce sem eru stjórnendur efnafyrirtækisins Ineos sem framleiðir meðal annars plastefni, vökva og endurnýjanlega orku úr sorpi.

Ratcliff er stjórnarformaður og forstjóri en hann stofnaði félagið árið 1998 og á hann enn um 60% hlut í því. Samkvæmt milljarðamæringalista bandaríska tímaritsins Forbes er Ratcliff fimmti ríkasti maður Bretlands og í 233. sæti á heimvísu. Eignir hans eru metnar á 6,1 milljarð bandaríkjadala eða 752 milljarða króna.

Ratcliff er fæddur í Manchester á Englandi þar sem fjölskylda hans bjó í félagslegu húsnæði. Hann útskrifaðist sem efnaverkfræðingur frá Birmingham og starfaði framan af hjá Esso.

Hann tók síðan MBA gráðu og starfaði hjá bandarískum fjárfestingasjóð áður en hann stofnaði INSPEC sem leigði efnaverksmiðju í Belgíu af olíufélaginu BP. Hann stofnaði síðan Ineos til að kaupa BP út úr verksmiðjunni.

Flugvélar, snekkjur og mótorhjól

Ratcliff byggði síðan auð sinn enn frekar með skuldsettum yfirtökum á efnaverksmiðjum sem hann taldi geta aukið tekjur sínar á stuttum tíma. Meðal annars yfirtók hann olíuhreinsistöðvar BP. Nýverið hefur hann sýnt áhuga á að sækja fram í gasvinnslu við Bretland.

Ratcliff þykir ævintýramaður. Hann hefur bæði og Norður- og Suðurpólinn, í þriggja mánaða mótorhjólareisu um Suður-Afríku. Auk flugvélaflotans á hann tvær snekkjur.

Ineos er síður en svo óumdeilt félag. Iðnaðurinn þykir afar mengandi. Höfuðstöðvarnar voru fluttar til Sviss fyrir nokkrum árum til að komast hjá skattgreiðslum upp á 100 milljónir punda, eða 16 milljarða króna, á ári. Verkalýðsfélag í olíuhreinsistöð í Skotlandi var svínbeygt með hótun um lokun hennar. Það er einnig mikill mengunarvaldur.

Stjórnendur menntaðir í Cambridge

Recce og Currie eru hálfdrættingar á við Ratcliff en deila þó deila 29. sætinu á lista Forbes yfir ríkustu Bretana. Auður þeirra byggir fyrst og fremst á hlut í Ineos sem metinn er á tvo milljarða dollara eða tæpa 250 milljarða íslenskra króna.

Currie er menntaður í náttúruvísindum frá Cambridge en starfaði sem yfirmaður í efnadeild BP áður en hann gekk til liðs við Ratcliff hjá Inspec og síðan Ineos þar sem hann er titlaður forstöðumaður.

Recce er líkt og Currie menntaður í Cambridge. Hann er endurskoðandi og starfar í dag sem fjármálastjóri Ineos en var áður meðeigandi hjá PriceWaterhousCoopers.

Auk þess að starfa í margvíslegum efnaiðnaði standa Ineos og stjórnendur þess í flugrekstri. Vélarnar þrjár sem lentu í dag eru allar skráðar á félög sem Ratcliff, Currie og Recce eru í forsvari fyrir.

Glæsivélar

Vélarnar eru skráðar á eyjunni Mön en gerðar út frá Hampshire á Suður-Englandi. Fyrsta ber að nefna M-CHEM, Dassault F2000EX, næsta M-INTY sem er af gerðinni Gulfstream G280 og að endingu M-USIC sem er stærst, 45 tonna þota af gerðinni Gulfstream V-SP G550.

M-USIC kom fyrst í gær og fór svo fram og til baka í dag. Hinar tvær lentu í dag og skiluðu af sér farþegum áður en þær flugu aftur af landi brott.

Austurfrétt er ekki kunnugt um hvaða farþegar komu með vélunum eða hvert erindi þeirra er austur á land.

m music flugvelar 0015 web

m music flugvelar 0026 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.