Fortitude fær fjórar stjörnur: Gamli góði viðbjóðurinn með betri söguþræði

Gagnrýnendur taka vel í fyrsta þátt annarrar þáttaraðar Fortitude þáttanna sem frumsýndur var í Bretlandi í gær. Þeir fagna því enn viðgangist sama viðbjóðslega ofbeldið í stórkostlegu umhverfi en handritshöfundurinn hafi einfaldað söguna.


Gagnrýnandi Empire er meðal þeirra sem splæsa fjórum stjörnum á nýjasta þáttinn en hefur dóm sinn á að rifja upp að í fyrstu þáttaröðinni hafi handritshöfundurinn hent of mörgum boltum á loft í fyrstu þáttunum og legið of mikið á að grípa þá í síðasta þættinum.

Þrátt fyrir magnað landslag og góða leikara hafi ekki verið komist hjá þeirri tilfinningu að meira púðri hafi verið eytt í markaðssetninguna heldur en persónusköpun og söguþráð.

Sú ákvörðun að skera niður í leikarahópnum, þótt hann hafi verið góður, gæti verið happafengur annarrar þáttaraðarinnar. „Hún lítur enn stórkostlega út og er frábærlega leikin en blessunarlega er bara passlega mikið í gangi en ekki alltof mikið.“

Stendur Fortitude loks undir væntingum?

Fleiri er á þessum slóðum, meðal annars rýnir Daily Telegraph. Hann spyr hvort stjórnendur Sky sjónvarpsstöðvarinnar hefðu ekki viljað skapa minni væntingar fyrir fyrstu þáttaröðinni. Nýju þættirnir fari betur af stað þar sem söguþráðurinn snúist um færri en feitari bita.

Viðbjóðurinn sé meiri en í öðrum sakamálaþáttum á Norðurslóðum og loks nú gæti Sky verið með í höndunum efniviðinn í þær vinsældir sem stefnt var á með dýrasta sjónvarpsþætti sem Bretar hafa framleitt.

Áætlað er að 1% breskra sjónvarpsáhorfenda, 226 þúsund, hafi horft á þáttinn í gærkvöldi, sem er nokkru meira en meðaltalið á þessum tíma en til samanburðar horfði 724 þúsund eða 3,6% á fyrsta þátt fyrri þáttaraðarinnar.

Hugmyndaflug í hryllingi

Gagnrýnandi Independent líkir viðbjóðnum við Alien-myndir Ridley Scott en lýsi um leið hugmyndaflugi. „Ég keyrði á hreindýr. Það fór í tvennt...eins og jólakort“ er ein af hans eftirlætis línum.

Í upphafi hafi þurft þriggja mínútna upprifjun um það sem gerðist í fyrstu þáttaröðinni og dramað sé enn út um allt en hið sjónræna í Fortitude dragi áhorfendur enn að skjánum.

Irish Times segir tilraunir Fortitude til að markaðssetja sig sem ferðamannastað einhverjar þær vitlausustu síðan send voru út boð um ferð með hinu ósökkvandi Títanik. Útkoman sé hins vegar fínasti uppvakningaþriller á ís.

Felur ekki skoska hreiminn

Af nýjum leikurunum er mestu púðri eytt í Dennis Quaid og er samdómaálit að veiðimaðurinn sem hann leikur lífgi töluvert upp á þættina.

Túlkun Ken Stott á embættismanninum Erling Munk, sem kemur úr höfuðstaðnum helst til að loka Fortitude og á örugglega eftir að vekja lukku hjá einhverjum austfirskum áhorfendum, fær hins vegar önnur viðbrögð.

Digital Spy segir hann engan vegin geta falið þykkan skoskan hreiminn og fyrir vikið kalli tilraunir hans til að tala með norskum hreim á hlátur þegar þess var ekki ætlast.

Handritshöfundurinn flæktist í eigin söguþræði

Gagnrýnandi The List tímir ekki fleiri en þremur stjörnum en kann að vera að taka út pirring gagnvart aðalhandritshöfundinum fyrir fyrstu þáttaröðina. Hann hafi setið flæktur í eigin söguþræði, reynt að troða inn of mörgum furðulegum hugmyndum þannig sagan hafi verið orðið of flókin, ruglingsleg og pirrandi. Lausnin á gátunni hafi loks verið ófullnægjandi.

Stóra spurningin nú sé hvort hann standist freistinguna um að flækja frásögnina með of mörgum smáatriðum eða hliðarsögun eða haldi sig við góða morðgátu. Fyrsti þátturinn gefi tilefni til bjartsýni um að Fortitude byggi á því sem hafi verið þess helsti styrkleiki: frábær leikarahópur fastur í einstöku umhverfi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.