Fóru út í kosningavöku sem varð eftirminnileg fyrir annað en ætlað var: Venjulegt fólk er í sjokki

Tveir Seyðfirðingar fóru til New York á mánudag til að taka þátt í hátíðarhöldum þegar Hillary Clinton yrði kjörinn forseti Bandaríkjanna. Úrslitin urðu á annan veg og borgarbúar eru furðu slegnir.


„Ég var úti 2008 þegar Obama var kjörinn, fyrsti svarti forsetinn og fór núna til að upplifa sömu byltingu þegar fyrsta konan yrði kjörin. Það breyttist snarlega á kosninganóttina.“

Þetta segir Hildur Karen Sveinbjarnardóttir frá Seyðisfirði sem fór út ásamt vini sínum Stefáni Sveini Ólafssyni. „Þetta er bara fimm daga ferð. Kosningavakan var aðaltilgangurinn en hún varð merkileg á allt annan hátt en við hefðum viljað upplifa.“

Fáir háværir með Trump

Þau eru í New York, heimavelli beggja frambjóðendanna. Þau reyndu að komast inn á kosningavöku Hillary í Javits Center á Manhattan. Staðurinn var táknrænn, yfir honum er mikil glerþak sem Hillary ætlaði að brjóta ásamt stuðningsmönnum sínum þegar hún yrði fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna. „Við reynum að komast þangað enn en það var ógerlegt, það var svo mikið af fólki.“

Í staðinn fóru Seyðfirðingarnir á Times Square. „Hillary var með yfirburða stuðning í borginni og langflestir sem þangað mættu studdu hana. Svo var lítill en hávær hópur stuðningsmanna Trump sem hélt á Jesús-spjöldum og svoleiðis og fagnaði ákaft.“

En eins og kunnugt er tapaði Hillary fyrir keppinaut sínum, Donald Trump. Hún mætti ekki á kosningavökuna heldur lét það bíða til næsta dags að flytja ræðu. Það gerði hún á hóteli sem fáir komust að.

Fyrirhöfn að nýta kosningaréttinn

Hildur Karen og Stefán Sveinn heimsóttu kjörstaði á kjördag en fóru daginn eftir kjörið að Trump Tower á fimmtu breiðgötu daginn eftir kjörið. „Þar var svolítið af mótmælendum en óvenju mikið af stuðningsmönnum, til dæmis „Blacks for Trump“ sem er fremur sérstakur hópur og töluvert af trúarofstækisfólki.“

Mest fylgi Trump var meðal ómenntaðra hvítra kjósenda og kristinna en aðrir kynþættir, trúarhópar og langskólagengnir kusu frekar Hillary. Þá sótti hann fylgi sitt í dreifbýlið en hún í borgirnar.

„Það er kosið á þriðjudegi og láglaunahópar eiga erfiðra með að komast úr vinnu auk þess sem þarf að skrá sig á kjörskrá með töluverðum fyrirvara. Það er nokkur fyrirhöfn að nýta kosningaréttinn og hennar fólk vill meina að það hafi spilað inn í.“

Leiði fremur en reiði

Hildur Karen segir töluvert aðra stemmingu á svæðinu heldur en þegar Obama var kosinn fyrir átta árum og í New York hafi heimamenn ekki áttað sig fyllilega á því sem gerst hafi. Trump sótti fylgi í dreifbýlið en var með minna fylgi á landsvísu heldur en Hillary og þeir sem töpuðu síðustu tveimur kosningum.

„Venjulegt fólk er í sjokki. Árið 2008 ríkti gleði, von og ánægja en hún er doði. Fólk skilur ekki hvað gerðist. Það voru allir kátir þegar við komum og voru með Hillary barmmerki en úrslitin komu eins og köld vatnsgusa framan í það. Mér finnst fólk leitt, það ríkir hér fremur leiði en reiði.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.