Áfram skal haldið: Jónas og Valdimar á Álfaborgarsjens
Fjölskylduhátíðin Álfaborgarsjens fer fram á Borgarfirði eystra næstkomandi helgi. Þetta er í 19. skiptið í röð sem hátíðin er haldin sem gerir hana að einni elstu Verslunarmannahelgarhátíð á meginlandinu.
Hátíðin hefur haldið velli þrátt fyrir að hafa eignast litla systur í formi Bræðslunnar sem nú er vaxin henni nokkuð yfir höfuð. Að þessu sinni ber hæst á hátíðinni hið árlega hagyrðingamót á föstudagskvöld undir styrkri stjórn Freys Eyjólfssonar útvarpsmanns og skemmtikrafts, stórdansleik með hljómsveitinni Nefndinni á laugardagskvöld og rúsínan í pylsuendanum verða tónleikar á sunnudagskvöld með hinum nýættleidda syni Borgarfjarðar Jónasi Sigurðssyni auk Valdimars Guðmundssonar söngvara og gesta.
Jónas hefur nýlokið við 18 tónleika á Borgarfirði á 20 dögum en á erfitt með að slíta sig frá Borgfirðingum mestmegnis vegna þess að þeir vilja ekki sleppa honum.
Álfaborgarsjens 2012
Fimmtudagur 2. ágúst
80's kokkteilakvöld í Álfakaffi
Föstudagur 3. ágúst
20:00 Hagyrðingamót í Fjarðarborg. Stjórnandi: Freyr Eyjólfsson. Hagyrðingar: Andrés Björnsson, Friðrik Steingrímsson, Halla Gunnarsdóttir, Stefán Bogi Sveinsson og Þorsteinn Bergsson.
24:00 Lifandi tónlist í Álfakaffi að loknu hagyrðingamóti.
Laugardagur: 4. ágúst
13:00 Ævintýraferð barnanna
14:00 Knattspyrna á Borgarfjarðarvelli
16:00 Neshlaup. Hlaupið frá Snotrunesi og inn í Bakkagerði.
23:00 Dansleikur í Fjarðarborg með hljómsveitinni Nefndinni
Sunnudagur 5. ágúst
15:00 Lindabakkadagurinn. Sveitastjórnin bakar pönnukökur við Lindarbakka handa gestum og gangandi.
16:00 Sérkennileikar á Borgarfjarðarvelli. Keppni í óvenjulegum og jafnvel óþekktum íþróttagreinum.
22:00 Tónleikar í Fjarðarborg með Jónasi Sigurðssyni og Valdimar Guðmundssyni ásamt gestum.
23:00 Lifandi tónlist í Álfakaffi