Friðartilboð kirkjunnar
„Ég legg inn ákveðin fræ sem hver og einn getur svo unnið áfram með. Grunnhugsunin er að fólk geti stundað þetta heima, helst tvisvar sinnum á dag, en nýti vikulegu fundina til þess að koma og ræða upplifun sína og fá handleiðslu ef þess þarf til þess að fræin spíri sem best,“ segir guðfræðingurinn Arnaldur Máni Finnsson, en hann mun kynna Kyrrðarbænina (Centering Prayer) í Egilsstaðakirkju á laugardaginn.
Arnaldur segir að um sé að ræða aldagamla aðferð til að kyrra eigin hugsanir og dýpka sambandið við Guð, sjálfan sig og hið heilaga í lífinu. Aðferðin var kynnt af sr. Guðrúnu Eggertsdóttur í Egilsstaðakirkju í september þar sem góður hópur tók þátt og síðan var kyrrðarbæn iðkuð vikulega í kirkjunni fram á aðventuna.
Almenn vakning á andlegri vinnu
„Áhugi almennings á hugleiðslu og öðrum aðferðum í leit að innri friði fer sífellt vaxandi og í ljósi þess hefur gömlum bænaaðferðum í kristinni trú verið gefinn meiri gaumur og talsverð vakning fyrir því að sinna sínu andlega lífi með þeim hætti.
Bænalífið er grundvöllur allra trúarbragða og í þeim öllum er að finna eitthvað form kyrrðarbæna sem fólk nýtir til þess að ná sambandi við sjálft sig og æðri mátt. Allir eru velkomnir, burt séð frá því hversu djúpt þeir finna sig kristinni trú almennt. Auðvitað sitjum við í kirkjunni, sem er staður sem helgaður er andlegu lífi, en þar er er afskaplega góð og friðsæl orka. Kyrrðarbænin er kyrrlát og um margt svipuð hugleiðsluaðferðum sem byggja á öðrum hefðum. Fundina í haust sótti fólk úr öðrum hefðum, til þess eins að halda sig við sitt eigið andlega prógramm,“ segir Arnaldur Máni.
Samkenndin sterk þegar áföll ríða yfir
Eins og við vitum er mikið álag og erill í hversdagslegu amstri og margir sem reyna að beina huga sínum að kyrrð og frið. Síðustu dagar hafa verið erfiðir og þegar slík áföll ríða yfir upplifir fólk samkenndina svo sterkt og þessi tegund bænalífs er kjörin til þess að létta á huganum með því að beina honum til æðri máttar. Hægt er að nýta þessa aðferð í allri sjálfsvinnu, en segja má að þetta sé tilboð kirkjunnar fyrir alla sem vilja heypa frið inn í hjarta sitt og huga.“
Kynningin verður á laugardaginn milli klukkan 11:00-13:30. Kyrrðabænastundir eru í framhaldinu áætlaðar á miðvikudögum milli klukkan 17:00 og 17:30.