![](/images/stories/news/2016/sundskóli_vilborgar_og_salome.jpg)
„Fyrst og síðast gæðastundir barna og foreldra“
Sundskóli Vilborgar og Salóme í Neskaupstað býður upp á fjölbreytt námskeið fyrir börn frá þriggja mánaða aldri upp í sex ára.
Kennt er í sundlauginni á Fjórungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og um kennsluna sjá þær Vilborg Stefánsdóttir, sjúkraþjálfari og ungbarnasundskennari og Salóme Rut Harðardóttir íþrótta- og heilsufræðingur og sundþjálfari, auk þess sem Sævar Steinn Friðriksson hefur aðstoðað við kennslu elstu sundkappanna.
Vilborg kláraði ungbarnasundskennararréttindin 2011 og hefur verið með ungbarnasund í Neskaupstað síðan þá. Salóme Rut kláraði sitt nám 2015 og flutti þá aftur heim. Var á meðan hún var í námi yfirþjálfari hjá Sunddeild Aftureldingar í Mosfellsbæ.
SÚN styrkti sundskólann til tækjakaupa
„Samstarf okkar hófst haustið 2015 og buðum við þá upp á ungbarnasund fyrir börn á aldrinum þriggja til tíu mánaða. Okkur langaði mikið til að ná til sem flestra barna á aldrinum þriggja mánaða til sex ára og ákváðum að hella okkur í kennslu í ár. Við sóttum um styrk í menningar- og styrktarsjóð SÚN til tækjakaupa, sem við og fengum og erum gífurlega þakklátar fyrir það,“ segja þær Vilborg og Salome.
Eftir áramót hefur verið boðið upp á námskeið fyrir fimm aldursflokka, frá þriggja mánaða aldri til sex ára.
„Námskeiðin hafa verið mjög vel sótt og færri komist að en vilja, en gaman er að segja frá því að nágrannar okkar sunnan Skarðs hafa verið mjög duglegir að koma og finnst okkur það afar gleðilegt.“
Dásamlegt að klára vinnudaginn þreyttur en brosandi
Ungbarnasund er hreyfiþjálfun í vatni þar sem farið er í margs konar hreyfileiki og sungið.
„Ungbarnasund er líka nokkurs konar forvarnarstarf til að gera barnið sjálfbjarga í vatninu. Það lærir smám saman að bera virðingu fyrir vatninu og varast hættur. Börn þurfa mismikla aðlögun í ungbarnasundi og við þurfum alltaf að hugsa fyrst og síðast um að barninu líði vel og gefa því þann tíma sem þarf. Við þurfum að gæta þess vel að gera þau ekki fráhverf vatninu. Fyrst og síðast eru þetta þó gæðastundir barna og foreldra, þar sem tilfinngatengslin eru efld og barnið lærir að treysta foreldrum í vatninu og foreldrar læra handtök á barninu við aðrar aðstæður en í daglega lífinu.
Fyrir fjögurra til sex ára börnin leggjum við fyrst og fremst áherslu á hreyfiþjálfun sem stuðlar að því að börnin venjist vatni sem hreyfiumhverfi og læri helstu umhverfis- og öryggisreglur á sundstað og að kynna fyrir þeim helstu sundaðferðir . Börnin verða betur undirbúin fyrir sundkennslu á grunnskólastigi og félagslegur þroski þeirra eykst.
Við vonumst til að með þessum námskeiðum náum við að leggja grunn að sundiðkun þessara hópa til frambúðar sem jafnvel skili sér inn í sunddeildir íþróttafélaganna. Auk þess er ómetanleg hvatning og gleði að sjá börnin eflast og skemmta sér í vatninu og dásamlegt að fá að klára vinnudaginn þreyttur en brosandi,“ segja þær Vilborg og Salóme.
Nánari upplýsingar um sundskólann má nálgast hér.