Gæðastund í núinu á Fáskrúðsfirði
„Hugleiðsla og núvitnd hafa hjálpað mér mikið á erfiðum tímum í lífinu,“ segir jógakennarinn Solveig Friðriksdóttir, en hún stendur fyrir jógatíma í vatni og núvitundarfyrirlestri á Fáskrúðsfirði í næstu viku ásamt einkaþjálfaranum Fjólu Þorsteinsdóttur.
Þær Solveig og Fjóla munu bjóða upp á gæðastund á Fáskrúðsfirði þriðjudagskvöldið 1. mars næstkomandi.
„Við byrjum í sundlauginni á rólegri vatnsleikfimi og jóga í vatni, þar sem við munum eiga notarlega stund við kertaljós og rólega tónlist.
Sama kvöld stöndum við fyrir stuttum fyrirlestri um hreyfingu og núvitund á Labri þar sem boðið verður upp á kjúklingasalat og tómatsúpu og Berglind Agnarsdóttir tekur lagið,“ segir Solveig.
Núvitund öflugasta leiðin gegn streitu
Solveig kynntist hugleiðslu og núvitund gegnum sína jógaástundun.
„Um leið og ég kynntist jóganu og fór að hugleiða fann ég fyrst verulega sátt í hjartanu, en hugleiðsla hefur hjálpað mér á erfiðum stundum í mínu lífi, til dæmis við að takast á við missi og sorg. Hún hefur einnig hjálpað mér í að takast á við þau vefjagigtareinkenni sem ég er með.
Núvitund er ein öflugasta leið sem þekkist í dag til að vinna á streitu og auka vellíðan og hamingju í daglegu lífi, en streita er talin helsti heilsuvandi Vesturlandabúa nú um mundir því hraði hugarangur og áreiti einkenna líf okkar flestra.
Núvitund er ekki nýtt fyrirbæri og rekur rætur sínar til Búddismans og þar kemur tengingin við jógafræðin. Í jóga erum við alltaf að æfa okkur í núvitund. Í núvitund beitum við athyglinni á ákveðinn máta. Við ákveðjum að beina athyglinni að líðandi stund, að því sem er að gerast hér og nú, en ekki í fortíð eða framtíð.“
Sjálfstraustið óx við jógaiðkunina
Solveig segir sjálfstraust sitt hafa eflst gegnum sína jógaiðkun.
„Gegnum mitt jóga og þjálfun í núvitund og ég hef áttað mig á því að ég bý yfir miklum styrk og hef upp á margt að bjóða. Í dagsins amstri er hugleiðsla í núvitund mín besta leið til að komast í gegnum annasama viku án þess að týna orkunni minni. Í gegnum þessa ástundun finn ég sífellt meiri gleði og hamingju í lífinu.
Við viljum því hvetja sem flesta til þess að mæta til okkar næstkomandi þriðjudag og vera með okkur í þessu frábæra ferðalagi,“ segir Solveig.
Nánari upplýsingar og bókanir eru í síma 470-4070.