Gerði heimildamynd um Fransmenn á Íslandsmiðum: Sökk alltaf dýpra og dýpra í söguna

Gísli Sigurgeirsson hefur sent frá sér heimildamyndina Allabaddarí fransí biskví um veiðar Frakka við Íslandsstrendur og uppbyggingu Franska spítalans á Fáskrúðsfirði. Hann segir sögu Frakkanna merka en takmarkað fari fyrir henni í Íslandssögunni.

„Veiðarnar hófust um 1830 og stóðu fram að fyrri heimsstyrjöld. Á þessu tímabili voru trúlega milli 4 og 5 þúsund Frakkar hér á hverju ári en það fer ekki mikið fyrir þessu í Íslandssögunni,“ segir Gísli.

Gísli er Austfirðingum að góðu kunnur, bæði fyrir að hafa búið eystra um tíma en síðar sem fréttamaður RÚV í áraraðir og svo umsjónarmaður Gletta að austan á N4. Samhliða þeirri þáttagerð fór Gísli að safna myndefni og kynnast sögu Frakkanna.

„Þetta er mynd sem ég hef gert á löngum tíma. Ég byrjaði að safna í hana efni þegar ég kom á Fáskrúðsfjörð þegar Minjavernd var að byrja framkvæmdir við Franska spítalann. Fyrstu tökurnar eru frá flutningi hans 2010.

Þar ræddi ég við framkvæmdastjóra Minjaverndar sem fór að segja mér sögu Frakkanna. Ég hreifst strax af henni fannst sagan áhugaverðari eftir sem ég fór að kanna hana frekar.“

Lifðu af með að fá sér heita snafsa

Lítið er til af hreyfimyndum frá veiðum Frakkanna en Gísli fann myndskeið sem tekið er laust upp úr aldamótunum 1900. Hann notar þess í stað ljósmyndir til að glæða sögu Frakkanna lífi.

„Þetta er stórkostleg saga þegar farið er að kafa ofan í hana. Það var mikil vinna og ég sökk alltaf dýpra og dýpra. Síðan kom að því að klára myndina og þá fannst mér allt svo merkilegt þegar ég þurfti að passa að vera ekki of langur.

Frakkarnir komu að landinu í lok febrúar, á duggum hlöðnum vistum, veiðarfærum og miklu af víni. Það var sagt að þeir hefðu lifað af með að fá sér heita snafsa.

Austfirðingar nutu líka stundum góðs af þessum vistum. Þeir fóru gjarnan um borð til að selja prjónaföt og fengu greitt í brennivíni og biskví. Þeir voru sólgnir í það harða tekex sem geymdist svo vel.

Ég hafði heyrt talað um Frakkana fyrir austan, að það væri einn og einn brúneygður íbúi á fjörðunum sem væri kannski afrakstur þess að Frakkar komu í land. Þegar ég kynntist sögunni komst ég að raun um að hún væri miklu stærri en ég gerði mér grein fyrir.“

Hreifst af uppbyggingu Franska spítalans

Gísli valdi Fáskrúðsfjörð sem miðpunkt í sögunni, þótt Frakkarnir hefðu sett upp bækistöðvar víða um landið. Í myndinni vefur hann saman sögunin af veiðunum við uppbyggingu Franska spítalans.

„Ég fylgdist með uppbyggingunni ár frá ári og hreifst af því hvernig staðið var að öllu. Við endurbygginguna var búið að hugsa fyrir öllu til enda og finna húsinu hlutverk, sem ég held að hafi verið mikilvægt.

Síðan voru mál leyst mjög vel, eins og að að setja jarðgöng undir aðalgötu bæjarins sem skilur af húsin og til að þau yrðu ekki leiðinleg undirgöng voru þau gerð að skipslíkandi þannig þeir sem um fara ganga í gegnum franska skútu.“

Myndinni lýkur með vígslu Franska spítalans sumarið 2014. Hann hýsir nú hótel, safn og veitingastað sem Gísli telur mikla lyftistöng fyrir Fáskrúðsfjörð.

„Á Fáskrúðsfirði fögnuðu innfæddir framkvæmdunum. Þeir höfðu orðið varir við áhuga frá Frökkum að koma í hálfgerðar pílagrímsferðir. Margir sjómannanna komu ekki aftur, það er talið að 4-5000 Frakkar hafi farist við Íslandsstrendur.

Afkomendur þeirra hafa verið áhugasamir að koma, því sumir forfeður þeirra eiga merkta gröf á Fáskrúðsfirði. Áður var lítil þjónusta við þessa gesti. Því var þessum framkvæmdum fagnað af öllum ekki síst Frökkum.

Mér finnst uppbygging Minjaverndar hafa tekist einstaklega vel. Það hefur verið haldið upp á það gamla en aðlagað að nútímanum og ég held að samstarfið við Minjavernd hafi verið hvalreki fyrir Fjarðabyggð.“

Í hjólför Jökuldælinga

Eftir að Gísli hætti að koma austur til að taka upp efni í Gletturnar hefur hann snúið sér að heimildamyndagerð. This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Hann er með mynd í smíðum sem tengist Austurlandi.

„Hún er um fyrstu ferð ökutækis inn á Efri-Dal. Ragnar á Hákonarstöðum keyrði hertrukk þangað áður en nokkrir vegir komu og þurfti þess vegna eftir heiðarbrúninni. Við erum búnir að fara í hans hjólför en eigum eftir að safna meira myndefni af Jökuldal og mannlífinu þar. Vonandi verður sú mynd tilbúin fyrir næstu jól.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.