![](/images/stories/news/folk/gettubetur_me_2017_0015_web.jpg)
Gettu betur: ME í sjónvarpið eftir sjö ára hlé
Lið Menntaskólans á Egilsstöðum er komið í sjónvarpshluta spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur. Liðið burstaði Fjölbrautaskóla Suðurnesja á mánudag en sama dag féll Verkmenntaskóli Austurlands úr leik með minnsta mögulega mun.
„Þetta hefur verið draumurinn síðan ég komst í liðið,“ segir fyrirliðinn Alexander Ingi Jónsson sem er á sínu þriðja ári í keppni. Auk hans skipa liðið Gísli Björn Helgason og Ása Þorsteinsdóttir en Þuríður Nótt Björgvinsdóttir er varamaður.
Liðið vann FS 28-9 í seinni umferð í útvarpi á mánudag. Staðan eftir hraðaspurningar var 14-9 en Suðurnesjaliðið svaraði engri bjölluspurningu rétt.
„Þetta var skrýtin keppni, frekar þægileg. Það var eins og það væri engin keppni í þeim eftir hraðann,“ segja Gísli og Ása.
Dregið verður um mótherja í sjónvarpshlutanum í Kastljósinu í kvöld. Þau segjast ekki eiga neina óskamótherja, helst hvorki MR eða Kvennó, sem vann ME í fyrra og virðist með sterkt lið í ár einnig.
Landsbyggðarslagur við Menntaskólann á Akureyri kitlar hins vegar. „Það eru 20 ár síðan ég komst í sjónvarpið, það var í fyrsta skipti sem ME fór þangað. Þá unnum við MA 22-21 á Akureyri eftir tvöfaldan bráðabana,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, þjálfari liðsins.
ME komst þá þrjú ár í röð í sjónvarpið, svo 2005, 2007, 2009 og síðast 2010, alls sjö sinnum. Stefán Bogi keppti í fyrstu tvö skiptin og þjálfaði liðið 2010 einnig.
Verkmenntaskóli Austurlands tapaði gegn téðu MA-liði á mánudag með minnsta mögulega mun, 22-23. MA var yfir eftir hraðaspurningarnar 14-17.
Bjölluspurningarnar reyndust þungar en VA sýndi mikla seiglu og komst yfir 20-19. MA svaraði þá tveimur bjölluspurningum í röð og var búið að tryggja sér sigur áður en kom að lokaspurningunni sem VA svaraði rétt.
Í liðinu voru þau Sigurður Gunnþórsson, Þorvaldur Marteinn Jónsson og Marta Guðlaug Svavarsdóttir. Liðið breytist fyrir næsta vetur því drengirnir tveir eru að útskrifast.