Gettu betur: ME í sjónvarpið eftir sjö ára hlé

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum er komið í sjónvarpshluta spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur. Liðið burstaði Fjölbrautaskóla Suðurnesja á mánudag en sama dag féll Verkmenntaskóli Austurlands úr leik með minnsta mögulega mun.


„Þetta hefur verið draumurinn síðan ég komst í liðið,“ segir fyrirliðinn Alexander Ingi Jónsson sem er á sínu þriðja ári í keppni. Auk hans skipa liðið Gísli Björn Helgason og Ása Þorsteinsdóttir en Þuríður Nótt Björgvinsdóttir er varamaður.

Liðið vann FS 28-9 í seinni umferð í útvarpi á mánudag. Staðan eftir hraðaspurningar var 14-9 en Suðurnesjaliðið svaraði engri bjölluspurningu rétt.

„Þetta var skrýtin keppni, frekar þægileg. Það var eins og það væri engin keppni í þeim eftir hraðann,“ segja Gísli og Ása.

Dregið verður um mótherja í sjónvarpshlutanum í Kastljósinu í kvöld. Þau segjast ekki eiga neina óskamótherja, helst hvorki MR eða Kvennó, sem vann ME í fyrra og virðist með sterkt lið í ár einnig.

Landsbyggðarslagur við Menntaskólann á Akureyri kitlar hins vegar. „Það eru 20 ár síðan ég komst í sjónvarpið, það var í fyrsta skipti sem ME fór þangað. Þá unnum við MA 22-21 á Akureyri eftir tvöfaldan bráðabana,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, þjálfari liðsins.

ME komst þá þrjú ár í röð í sjónvarpið, svo 2005, 2007, 2009 og síðast 2010, alls sjö sinnum. Stefán Bogi keppti í fyrstu tvö skiptin og þjálfaði liðið 2010 einnig.

Verkmenntaskóli Austurlands tapaði gegn téðu MA-liði á mánudag með minnsta mögulega mun, 22-23. MA var yfir eftir hraðaspurningarnar 14-17.

Bjölluspurningarnar reyndust þungar en VA sýndi mikla seiglu og komst yfir 20-19. MA svaraði þá tveimur bjölluspurningum í röð og var búið að tryggja sér sigur áður en kom að lokaspurningunni sem VA svaraði rétt.

Í liðinu voru þau Sigurður Gunnþórsson, Þorvaldur Marteinn Jónsson og Marta Guðlaug Svavarsdóttir. Liðið breytist fyrir næsta vetur því drengirnir tveir eru að útskrifast. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.