Góðgerðapartý á Egilsstöðum í kvöld
Boðað hefur verið til góðgerðarpartýs í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld til styrktar nýstofnaðs stuðningsfélags á svæðinu fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.
Það er Hera Ármannsdóttir sem býður til veislunnar í tilefni af 45 ára afmæli sínu. Meðal þeirra sem koma fram og gefa vinnu sína eru Creedence Travellin´ Band, Kvartetinn Leifandi, Sædís Sif, Esther Jökuls, Soffía Karl, Magni og Sextettinn Hátt upp til hlíða. Gestum er velkomið að stíga á stokk.
Partýið stendur frá 21:00 til 01:00. „Þó þú þekkir mig ekkert en hefur áhuga á að styrkja gott málefni þá endilega láttu sjá þig og taktu vini þína með þér,“ segir Hera í boði sínu. „Hlakka til að sjá sem flesta í Sláturhúsinu með sól í hjarta!“