Skip to main content

Glóð í hópi bestu veitingastaða landsins

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. ágú 2016 13:13Uppfært 02. ágú 2016 13:14

Veitingastaðurinn Glóð í Valaskjálf á Egilsstöðum er einn af bestu veitingastöðum landsins að mati matarrýna The White Guide sem tekur út veitingastaði á Norðurlöndunum.


Í umsögn þeirra er umhverfi staðarins hrósað og sagt að eigandinn sé að taka öll réttu skrefin til að ýta undir gestrisni heimamanna.

Til að komast inn á listann þurfa veitingastaðir að fá að lágmarki 60 í einkunn af 100 mögulegum og að lágmarki 20 stig af 40 fyrir matseldina sjálfa. Glóð fær 64 í heildareinkunn og 23 fyrir matseldina sem leiðarvísirinn flokkar sem afar vel útfærða eldamennsku.

Horft er þar til ýmissa þátta eins og úrvals á matseðli, bæði rétti og verðbil, sérhæfingu og stíl staðarins, þróunar, bragðs og útlits og hversu flókin matseldin sé.

Matardómarnir snúast um fleira en matinn sjálfan og þjónustan skiptir máli, en eins og þar segir sé stundum nóg að vera indæll og brosa en á bestu veitingastöðunum þurfi meira til. Glóð fær 17/23 fyrir þjónustuna en þar er meðal annars horft til innréttinga, afgreiðsluhraða hvers konar, bókana og mats á réttri þjónustu fyrir hvern matargest.

Alls eru 17 íslenskir veitingastaðir á listanum fyrir árið 2016. Hæstu einkunnina fær Dill 79. Fjórir aðrir veitingastaðir af landsbyggðinni komast á listann: Rub23 á Akureyri, Slippurinn í Vestmannaeyjum, Lava í Grindavík og Pakkhúsið á Höfn.

White Guide hóf göngu sína í Svíþjóð árið 2005. Árlega eru kannaðir 800 veitingastaðir og 600 þeirra rata í leiðarvísinn sjálfan. Hann er kynntur sem leiðandi leiðarvísir um veitingastaði á Norðurlöndunum.

Matarrýnarnir panta borð undir dulnefnum og borga réttina sjálfir til að koma í veg fyrir að eigendur staða veiti þeim eftirtekt og þar með sérþjónustu í von um jákvæða umfjöllun. Rýnin verðlaunar persónulega þjónustu, sjálfbærni, sköpun en ofar öllu andrúmsloft staðarins.