Glæpaþættir teknir upp á Seyðisfirði?
Til stendur að taka upp íslenska glæpaþætti í leikstjórn Baltasars Kormáks á Seyðisfirði. Erlendar sjónvarpsstöðvar hafa sýnt þeim áhuga þótt þeir séu enn aðeins á handritsstigi.
Frá þessu er greint í Fréttatímanum í dag. Þeir hafa vinnuheitið „Trapped“ en verða teknir upp á íslensku. Fyrirmynd þeirra eru dönsku þættirnir „Forbrydelsen“ eða „Glæpurinn.“
„Þeir eru á fullu að skrifa þetta með Seyðisfjörð í huga þannig að það gæti vel verið að þetta verði tekið þar,“ er haft eftir Baltasar en hann vísar þar til handritshöfundanna Ólafs Egilssonar , Jóhanns Ævars Grímssonar og Sigurjóns Kjartanssonar.
„Hugmyndin er sú að ég muni leikstýra „pilotinum,“ fyrsta þættinum, og við fáum einnig aðra leikstjóra til að vinna í þessu líka.“
Til stendur að RÚV sýni þættina en erlendar sjónvarpsstöðvar eru þegar farnar að sýna þeim áhuga.
„Sigurjón fór til Danmerkur og kynnti þetta fyrir norrænum sjónvarpsstöðvum og mér skilst að þær vilji allar vera með. Við erum líka að tala við Þýskaland þannig að þetta lítur mjög vel út. Við höfum líka verið að kynna hugmyndina í Bandaríkjunum og liggur fyrir áhugi á að endurgera þatta.“