Glæsilegur sigur Fjarðabyggðar í Útsvari
Fjarðabyggð tryggði sig áfram í spurningakeppninni Útsvari á föstudagskvöld með 106-71 sigri á liði Skagafjarðar. Breyta þurfti liðinu frá því sem áður hafði verið tilkynnt vegna reglna um keppendur í framboði.
Það var Sigrún Birna Björnsdóttir sem tók sæti Ingibjargar Þórðardóttur nokkrum dögum fyrir keppnina eftir að Ingibjörg ákvað að gefa kost á sér í forvali Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í Norðausturkjördæmi.
Það kom ekki að sök. Rúmlega 30 stiga sigur var niðurstaðan en grunnurinn að honum var lagður í látbragðsleiknum. Forskotið jókst síðan í valflokkaspurningunum og sigurinn var innsiglaður þegar öllum stóru spurningunum þremur var svarað rétt.
„Það var í miðjum flokkaspurningunum sem ég fór að verða öruggur um að við myndum vinna,“ segir Kjartan Bragi Valgeirsson, einn liðsmanna Fjarðabyggðar.
Í nógu var að snúast hjá honum á keppnisdag en hann kynnti rannsóknarverkefni sitt í læknafræði við Háskóla Íslands á lyflæknaþingi fyrr um daginn.
Kjartan Bragi fer að auki ferða sinna á hækjum þessa dagana en hann er nýkominn úr aðgerð, sem hann gekkst undir á afmælisdaginn sinn 4. október, þar sem skrúfað var saman ársgamalt ristarbrot.
Fyrir meiðslin hljóp hann fyrir Fjarðabyggðarliði en nú gerir það Jón Svanur Jóhannsson. Hann komst heill frá keppninni að þessu sinni en hann rifbeinsbrotnaði í keppni við Ísfirðinga síðasta vetur. Eftir það kom Sjónvarpið upp púðum á milli liðanna þegar þau hlaupa að Ómarsbjöllunni.
Lið Fljótsdalshéraðs er komið áfram sem eitt af stigahæstu tapliðunum eftir 67-68 tap fyrir Reykjanesbæ um daginn. Þar keppti varalið sveitarfélagsins þar sem tveir af þremur aðalliðsmönnum voru veðurtepptir. Til stendur að þeir taki sæti sín í næstu umferð.
Mynd: RÚV