Göngum göngum ganga á sunnudaginn

seydisfjordur.jpg
Göngum, göngum hópurinn á Seyðisfirði stendur fyrir göngu yfir Fjarðarheiði á sunnudag til að minna á kröfu Seyðfirðinga um veggöng undir heiðina. Gangan er einnig hluti af hátíðarhöldum í tilefni af 100 ára afmæli íþróttafélagsins Hugins.

Gangan hefst á slaginu 12 á hádegi sunnudaginn 21. apríl. Eins og venjulega verður farið frá Herðubreið. Fólk er hvatt til að búa sig eftir veðri, og sniðugt er að hafa vatnsflösku og smá nesti.

En af því að þessi ganga er líka Huginsganga er vel við hæfi að hafa gulan og svartan lit áberandi. Bæjarbúar eru allir hvattir til að taka þátt í göngunni, engin krafa er um það að fara alla leið yfir fjallið. Einn góður kostur er að ganga upp í skíðaskála og fá sér þar kaffi eða kakóbolla.

Í boði er að koma á tveimur jafnfljótum, reiðhjólum, rúlluskautum, hlaupahjólum, kerru, barnavagni eða bara hvernig sem fólk helst vill taka þátt. 

Forsvarsmenn göngunnar hafa innan sinna raða alls konar fólk, til dæmis fjölmarga listamenn. Þess vegna verður framinn gjörningur á sunnudaginn. Þegar búið er að ganga í svona 30 mínútur verður stoppað aðeins og vonast er til að þá mæti „huldumaðurinn“ leyndardómsfulli og máli steininn í beygjunni í Hugins litunum í tilefni þessa atburðar. Síðast þegar steinninn var málaður lét Ben Stiller mála hann svartan.

Hattarmenn ætla að sýna Huginsmönnum stuðning og ganga til móts við Seyðfirðinga. Lagt verður af stað frá Selskógi kl 10:00 n.k. sunnudag 21. apríl 2013 og gengið upp á Norðurbrún Egilsstaðamegin. Reikna má með að gangan taki rúmar 2 klst.

Allir eru hvattir til að taka þátt en útfærsla á göngunni er í höndum þátttakanda um hvort styttri leið verði farin eða annar fararmáti verði fyrir valinu á heimleið. Klæðaburður verður að vera eftir veðri og vindum. Hattarklæðnaður er ákjósanlegur og gult vesti yfir svo allir sjáist.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.