„Gott að hitta fólk sem er í svipaðri stöðu“

Krabbameinsfélög Austurland og Austfjarða standa fyrir sameiginlegri hvíldarhelgi fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra á Eiðum helgina 15. – 17. september. Formaður Krabbameinsfélag Austfjarða segir slíka helgi hafa hjálpað sér mikið.


„Það var gott að hitta fólk sem var í svipaðri stöðu. Fólk fór að ræða ýmsa hluti og það var margt sem maður finnur þegar maður talar við fólk sem er á svipuðum stað í lífinu sjálfur.“

Þetta segir Jóhann Sæberg, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða en hann kynntist hvíldarhelginni á eigin skinni þegar hann var í krabbameinsmeðferð fyrir nokkrum árum.

Hvíldarhelgarnar eru löngu orðnar að árlegum viðburði í starfi félaganna tveggja. Þær eru sambland af félagsskap, fræðslu, hreyfingu og fræðslu. Meðal gesta í ár verður Ágústa Erna Hilmarsdóttir sem deilir reynslusögu sinni. Ágústa Erna gaf systur sinni beinmerg þegar hún veiktist áður en hún greindist sjálf með krabbamein.

Annað erindi helgarinnar verður frá næringarfræðingi auk þess sem kynning verður á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Austurlands. „Það er gott að vita hvað er í boði á svæðinu,“ segir Jóhann.

Helgin er gestum að kostnaðarlausum og öllum opin. „Við höfum fengið gesti alls staðar af landinu enda erum við þarna í dásamlegu umhverfi. Við höfum alltaf verið heppin með veður og verðum það áfram.“

Jóhann ásamt tónlistarmanninum KK á styrktarkvöldi Krabbameinsfélaga Austfjarða. Mynd: Hjalti Stefánsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.