Grillað fyrir alla á Neistaflugi á morgun
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. júl 2016 15:28 • Uppfært 28. júl 2016 15:36
Verslunarmannahelgarhátíðin Neistaflug verður sett á morgun í Neskaupsstað en dagskrá hátíðarinnar hefst í dag. Svanlaug Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir góða stemmingu í bænum.
Dagskrá Neistaflugs í Neskaupsstað hefst í kvöld með sundlaugargleði í sundlaug Norðfjarðar, útibíói við Nesskóla og 90s rokktónleikum með Eyþóri Inga, Magna og hljómsveitinni Dútl í Egilsbúð.
Svanlaug segir góða stemmingu í bænum en hún sé um margt frábrugðin öðrum hátíðum um verslunarmannahelgina, „Það er allt að gerast, allavega orðið þurrt og kominn 15 stiga hiti,“ segir Svanlaug en aðspurð hvort mikið hafi fjölgað í bænum svarar hún að það sé erfitt að meta, hátíðin sé ekki eins og sumar aðrar stórar útihátíðir. „Þetta er svo mikil fjölskilduhátíð, og hátíð brottfluttra Norðfirðinga að fólk er meira og minna í heimahúsum, það er alltaf eitthvað á tjaldstæðinu en þetta er nú engin Þjóðhátíð.“
Hátíðin verður sett á morgun en fyrir setninguna verður bryddað uppá nýung í dagskránni með sameiginlegu grilli fyrir alla í miðbænum. „Það eru skrúðgöngur úr hverfunum og eftir skrúðgöngurnar ætlum við í Neistaflugi að gefa öllum að borða niðri í bæ. Við reiknum alveg með 1000 - 1500 mans í þetta,“ segir Svanlaug.
Fjölbreytt dagskrá verður alla helgina, fullorðinsdagskrá í Egilsbúð á kvöldin og barnadagskrá á daginn í bænum. Að sjálfsögðu verða Gunni og Felix, sem aldrei missa af Neistaflugi á svæðinu en hljómsveitin Pollapönk verður líka í bænum alla helgina.
Dagskrána í heild sinni auk annarra gagnlegra upplýsinga má finna á heimasíðu Neistaflugs, neistaflug.is.